131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Rannsóknarmiðstöð á sviði landverndar og landgræðslu.

250. mál
[18:38]

Flm. (Ísólfur Gylfi Pálmason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu á þskj. 268 og þetta er 250. mál þingsins. Tillagan fjallar um stofnun alþjóðlegrar rannsóknamiðstöðvar á sviði landverndar og landgræðslu.

Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna möguleika á stofnun alþjóðlegrar rannsóknamiðstöðvar á Íslandi sem hafi það meginhlutverk að þróa aðferðir við rannsóknir á hnignun lands, jarðvegsrofi og endurheimt landgæða. Rannsóknamiðstöðin hafi jafnframt það hlutverk að miðla þekkingu á þessu sviði, m.a. til vísindamanna frá þróunarlöndum. Rannsóknamiðstöðin verði í Gunnarsholti.“

Ég mun skýra það betur síðar hvers vegna ég geri það að tillögu minni að rannsóknamiðstöðin verði þar.

Ísland hefur þá sérstöðu að fáar ríkar þjóðir hafa glatað jafnstórum hluta af þeim auðlindum sem felast í gróðri og jarðvegi. Íslendingar eiga sér jafnframt óvenjulanga sögu hvað varðar stöðvun jarðvegseyðingar og endurreisn landgæða. Landgræðsla ríkisins er elsta stofnun heims á þessu sviði, en skipuleg barátta gegn uppblæstri lands hófst hér á landi árið 1907, áratugum á undan öðrum löndum. Þá hét reyndar stofnunin Sandgræðsla ríkisins. Mikil þekking og reynsla hefur safnast saman um leiðir til að stöðva jarðvegsrof og endurreisa landkosti. Við eigum því miklu að miðla til annarra þjóða á þessum sviðum. Það kom m.a. vel í ljós þegar verkefni Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landgræðslu ríkisins um rannsóknir á jarðvegsrofi og leiðir til að „lesa landið“ fékk umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 1998. Það var stór stund og mikil viðurkenning fyrir þær stofnanir.

Hnignun landgæða er gríðarlegt vandamál í heiminum. Þessi vandi vex stöðugt og mun hafa mikil áhrif á ástand heimsmála næstu árin ef ekki tekst að efla varnir gegn eyðingaröflunum og vinna af meiri krafti að landbótum. Vandamálin eru erfiðust þar sem hagur íbúanna er bágastur, á jaðarsvæðum í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku. Vegna aðstæðna hér á landi hafa Íslendingar óvenjulega góðar aðstæður til að rannsaka landhnignun og leiðir til úrbóta miðað við t.d. aðrar Evrópuþjóðir.

Ísland staðfesti sáttmálann um varnir gegn eyðimerkurmyndun árið 1997. Íslendingar hafa samt sem áður ekki tekið nægjanlega virkan þátt í slíku starfi á alþjóðavettvangi sem er í mótsögn við mikla þekkingu okkar á þessu sviði. Íslendingar eru öflugir þátttakendur í alþjóðlegu starfi á öðrum sviðum þar sem sérstaða landsins er mikil, t.d. í tengslum við eldvirkni, jarðhita og fiskveiðar. Þetta samstarf veitir bæði hvatningu og leiðsögn um það hvernig unnt er að nýta sérstöðu Íslands hvað varðar vernd og endurreisn landkosta í alþjóðlegu samstarfi. Mikils er um vert að búa svo að faglegu landgræðslustarfi á Íslandi að unnt sé að taka þátt í öflugu alþjóðlegu vísindasamstarfi á þessu sviði. Einkum er mikilvægt að hingað geti komið sérfræðingar frá þróunarlöndunum til að afla sér þekkingar og nýrra viðhorfa á sviði endurheimtra landgæða.

Til þess að svo megi verða þarf að auka og samræma faglegt starf við verndun og endurreisn landkosta á Íslandi með áherslu á alþjóðlegt samstarf. Því er hér lagt til að komið verði á fót alþjóðlegri rannsóknamiðstöð á þessu sviði. Rannsóknamiðstöðin hefði m.a. bein tengsl við Landgræðslu ríkisins, Skógrækt ríkisins, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og Háskóla Íslands. Slík miðstöð gæti lagt mikla þekkingu af mörkum til þjóða sem berjast gegn eyðingu gróðurs og jarðvegsrofs.

Hvers vegna vil ég að alþjóðlega miðstöðin verði í Gunnarsholti? Það er ekki bara vegna þess að Gunnarsholt er í því kjördæmi sem ég kem frá heldur er þar unnið mjög faglegt starf. Það fer fram verulega faglegt starf hjá Landgræðslu ríkisins, bæði grasrótarstarf, ýmiss konar vísindastarf þar sem er samstarf við bændur, sveitarfélög, við beitarstýringu og ýmislegt fleira. Þar vinna vísindamenn við margs konar rannsóknir og margs konar tilraunir. Við ræðum mjög mikið um að það vanti störf fyrir háskólamenntað fólk á landsbyggðinni og þarna er einmitt vettvangur fyrir slíka stöð. Ég er alveg viss um að þingsályktunartillagan er lóð á þá vogarskál. Hér held ég að sé um mjög spennandi mál að ræða sem geti haft mikil áhrif bæði til atvinnusköpunar og einnig til nytsemdar fyrir Ísland og alþjóðlegt samstarf á þessum sviðum.