131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Rannsóknarmiðstöð á sviði landverndar og landgræðslu.

250. mál
[18:44]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta er í sjálfu sér ágæt tillaga og prýðilega rökstudd á margan hátt í greinargerðinni sem fylgir. Við vitum að uppblástur er mjög víða vandamál, þörf er á landgræðslu víða í heiminum eins og nefnt er hér, í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku. Það er einnig alveg rétt að við Íslendingar búum yfir mikilli reynslu og þekkingu á þessum sviðum sem hlotið hefur alþjóðaviðurkenningu. Hér hygg ég að tækifæri væri til sóknar fyrir okkur Íslendinga til að láta gott af okkur leiða. Við höfum á vissan hátt. gert það á öðrum sviðum. Við höfum haft hér skóla á vegum Sameinuðu þjóðanna, til að mynda í sjávarútvegi og í jarðfræði og eldfjallafræðum. Þetta eru hvor tveggja málaflokkar þar sem við búum yfir ákveðinni sérþekkingu sem hægt er nýta til að aðstoða fólk jafnvel þótt úr fjarlægum löndum sé.

Nú sér maður samt sem áður kannski ekki alveg fyrir sér hvað flutningsmaður er að hugsa, hvernig hann hefur hugleitt hluti eins og til að mynda rekstur og fjármögnun þó að hann sé svo sannarlega þeirrar skoðunar að þessi rannsóknarmiðstöð verði í Gunnarsholti. Ég get alveg tekið undir það, er alveg hjartanlega sammála því að það væri alveg kjörið að koma henni fyrir þar. En gaman væri að fá að heyra eitthvað aðeins um það hvort hv. flutningsmaður, Ísólfur Gylfi Pálmason, hafi hugleitt hvernig fjármagna eigi þessa starfsemi. Sér hann fyrir sér að þetta yrði eingöngu rannsóknarmiðstöð, miðstöð fyrir vísindamenn? Gæti hann séð fyrir sér að þarna yrði líka að einhverju leyti eins konar menntastofnun, kannski í samvinnu við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, eitthvað þess háttar, að hingað gæti komið fólk sem væri að leita sér menntunar á þessum sviðum og fengi þá leiðsögn og menntun sem það væri að leita að, sem það gæti síðan nýtt sér í heimalöndum sínum?

Nú er ég enginn sérfræðingur á þessum sviðum. Ég er hins vegar mikill áhugamaður um landgræðslu og afskaplega spenntur fyrir því starfi sem Landgræðslan hefur staðið fyrir og tel að við Íslendingum ættum í rauninni að gera miklu betur en við gerum í þessum málum. Við höfum sýnt það og sannað að hér er hægt að gera góða hluti ef rétt er að málum staðið.

Virðulegi forseti. Rétt að lokum í þessari stuttu ræðu minni. Ég væri ánægður ef hv. þingmaður gæti svarað þessum örfáu forvitnisspurningum mínum varðandi þessa þingsályktunartillögu sem ég að öðru leyti lít á með mjög svo jákvæðum hætti.