131. löggjafarþing — 111. fundur,  14. apr. 2005.

Rannsóknarmiðstöð á sviði landverndar og landgræðslu.

250. mál
[18:49]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má halda áfram að hugleiða upphátt hér í ræðustól um hvernig standa mætti að þessu máli. Það mætti kannski hugsa sér þá leið að hægt væri að skilgreina þetta á einhvern hátt sem þróunaraðstoð Íslands, aðstoð Íslands við erlendar þjóðir. Ég held til að mynda að framlag okkar til Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sé að hluta til einmitt skilgreint sem partur af þróunaraðstoð okkar en síðan komi á móti, að ég hygg, einhvers konar fjárframlag frá Sameinuðu þjóðunum.

Nú hef ég ekki kynnt mér það neinum í smáatriðum hvort einhverjir möguleikar væru á því að taka þetta skref, þ.e. að stofna eins konar háskóla Sameinuðu þjóðanna til að mynda í Gunnarsholti, háskóla Sameinuðu þjóðanna í því að kenna fólki aðferðir við að hamla gegn jarðvegsrofi og landeyðingu og jafnframt rannsóknir og kennslu á þessum sviðum sem og endurheimt landgæða, eins og talað er um í texta þessarar þingsályktunartillögu. Ég veit ekki hvort þetta er leið sem væri fær, að hugsa þetta á þessum nótum, en það er gaman að velta því fyrir sér.