131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Sameining heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu.

[15:13]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra og varðar hún áform ráðuneytisins um að sameina heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu alla undir einn hatt. Mér var kunnugt um þessar hugmyndir í febrúar sl. Ég átti fund með hæstv. heilbrigðisráðherra þann 22. febrúar og ég skildi niðurstöðu þess fundar á þann veg að hér væri um hugmyndir að ræða, áform sem ekki væru niðurnjörvuð eða niðurnegld. Á sama hátt hafa fulltrúar bæjarfélaganna Hafnarfjarðar og Garðabæjar lýst yfir efasemdum og raunar andstöðu við þessi áform, enda fæ ég ekki séð að neina nauðsyn beri til að ganga þessa vegferð. Í fyrsta lagi mun það lengja leiðslur milli heimamanna, ráðuneytis og heilsuverndarstöðva væntanlega. Sú nærþjónusta sem heilsugæslan er svo sannarlega verður því varla jafnbeinskeytt eftir.

Aukinheldur vil ég nefna að heimilishjálp og öldrunarþjónusta sem er nátengd starfsemi heilsugæslustöðva verður ekki tengd með sama hætti og fyrr, þ.e. þjónusta heimamanna viðkomandi sveitarfélaga.

Í þriðja lagi vil ég nefna, herra forseti, að þessar hugmyndir ganga þvert á fyrri hugmyndir og raunar fyrri yfirlýsingar heilbrigðisráðherra sjálfs í þá veru að að því beri að stefna að færa heilsugæsluna heim í hérað á nýjan leik. Ég hef ekki heyrt betur í þessum sal en að það sé góð stemmning fyrir þeirri hugmynd að stefna í þá áttina. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort ekki megi ganga út frá því sem gefnu að hann muni ekki knýja þessar hugmyndir, þessi áform, fram gegn eindregnum vilja heimamanna, heldur hefja viðræður við aðila um það með hvaða hætti megi þróa og efla heilsugæsluna á hverja lund sem er.