131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Sameining heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu.

[15:17]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Ég fagna skýrri og afdráttarlausri yfirlýsingu hæstv. ráðherra í þá veru að hér hafi hann fyrst og síðast verið að hreyfa hugmyndum, og hans ráðuneyti, og að ekki verði haldið áfram með þetta mál í fullri andstöðu við heimamenn. Ég þakka hæstv. ráðherra þetta drengskaparbragð sem ég vissi að hann mundi lýsa yfir.

Ég ætla ekki að setja á efnislegar umræður um málið að öðru leyti. Ég vil bara segja að ég hef ekki fest hendur á það með hvaða hætti, þar sem um er að ræða 170 þús. manns á þessu svæði, verði hægt að tengja betur nærþjónustu með því að setja þetta allt undir hatt Heilsuverndarstöðvarinnar í Reykjavík. Ég fæ það ekki séð. Ég fæ heldur ekki séð hvernig á að spara peninga í þessum efnum. En það er seinni tíma mál og ég vænti þess að hæstv. ráðherra ræði þau mál við heimamenn áfram, þreifi á þessu um eitthvert skeið og komist að skynsamlegri niðurstöðu. Það verður með öðrum orðum ekki knúð fram með ráðherratilskipun, ákvörðun sem gangi í berhögg við heimamenn. Fyrir það þakka ég hæstv. ráðherra Jóni Kristjánssyni hjartanlega.