131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Ráðstöfun söluandvirðis Símans.

[15:24]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir það svar að hann telji það koma til greina að verja hluta af söluandvirði Símans til Sundabrautar. Sundabrautin er trúlega eitt brýnasta verkefni í samgöngumálum Íslendinga í dag. Því miður er ekki búið að klára endanlega hönnunarvinnu við verkið en það er mjög brýnt að fjármunir séu til staðar til að fara í þessa framkvæmd. Hún varðar ekki eingöngu hagsmuni höfuðborgarbúa. Hér er um mikið landsbyggðarmál að ræða, málefni sem hefur verið í mikilli umræðu í þjóðfélaginu á undanförnum árum. Ég hvet hæstv. forsætisráðherra til að beita sér fyrir því að ef af sölu Símans verður — sem ég vona svo innilega — muni hluti af söluandvirði hans fara til að byggja Sundabraut. Það er mjög mikilvægt mál fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins og íbúa landsbyggðarinnar og við ættum öll að geta sammælst um ágæti þeirrar framkvæmdar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)