131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Könnun á viðhorfi til álvers á Suðurlandi.

[15:25]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þann 4. apríl sl. var til umræðu á Alþingi Gallup-könnun á viðhorfi til álvers. Í máli hæstv. iðnaðarráðherra kom fram að fólk var spurt á þremur svæðum á Norðurlandi, þ.e. í Skagafirði, á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu og Húsavík og Þingeyjarsýslu, um viðhorf sitt.

Það kom einnig fram í máli hæstv. ráðherra að könnun af þessu tagi kostaði lítilræði og í því skyni vil ég spyrja hæstv. ráðherra Valgerði Sverrisdóttur hvort hún muni beita sér fyrir því að sams konar kannanir um viðhorf almennings til álvers verði gerðar í Suðurkjördæmi.