131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Könnun á viðhorfi til álvers á Suðurlandi.

[15:27]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Virðulegi forseti. Síður en svo. Þessi fyrirspurn mín kemur ekki fram í gagnrýnisformi, heldur er málið þetta: Hverjir eiga að ráða staðsetningu næsta álvers á Íslandi? Eiga það að vera athafnamenn frá Bandaríkjunum eða annars staðar að úr heiminum eða eigum það að vera við, Íslendingar sjálfir?

Það sem hefur verið að gerast á Reykjanesi undanfarin missiri er til að mynda að útlit er fyrir að fyrirhuguð stálpípuverksmiðja sem samflokksmenn hæstv. ráðherra hafa verið að tala um undanfarnar vikur og mánuði verði ekki að veruleika. Enn fremur má minnast þess að í Suðurkjördæmi er einhver almesta orkuframleiðsla í landinu en enginn orkufrekur iðnaður. Á Reykjanesi erum við með öfluga stórskipahöfn sem er illa nýtt í dag. Því er eðlilegt að þessi umræða komist á það stig sem ég er að reyna að koma henni á. Ég spyr því hæstv. ráðherra aftur hvort hún muni beita sér fyrir því að sá kostur verði skoðaður alvarlega í framtíðinni að næsta álver á Íslandi verði í Suðurkjördæminu.