131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Könnun á viðhorfi til álvers á Suðurlandi.

[15:28]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þingmaður geri óþarflega mikið úr mínu valdi með því að telja að ég ákveði hvar næsta álver verði sett niður. Það er ekki þannig. Fjárfestirinn ákveður það og þar skiptir orkuverð lykilmáli.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að á þeim tíma sem virkjanaframkvæmdir fara fram á Suðurlandi, á Þjórsár-/Tungnaársvæðinu, er það vegna álvers í Straumsvík. Ég kann ekki að fara yfir þá sögu en ég býst við að Suðurlandið sé ekkert sérstaklega sterkt hvað varðar góðar hafnir og það geti hafa skipt einhverju þar um. Ég vil bara ítreka það að ég horfi jákvæðum augum á allar þær hugmyndir sem koma upp í sambandi við uppbyggingu atvinnulífsins og nýja kosti í þeim efnum og það á við um álver eins og annað. Guði sé lof kemur samt mjög margt annað til greina.