131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Könnun á viðhorfi til álvers á Suðurlandi.

[15:30]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Mér er kunnugt um að Samband sveitarfélaga á Suðurlandi hefur efnt til samstarfs í sambandi við atvinnuuppbyggingu og þá ekki síst stóriðju. Það er tiltölulega nýskeð þannig að það er ekki hægt að segja að það sé komið á formlegt samband við ráðuneytið í framhaldi af því. Engu að síður efast ég ekki um að það verði.

Af því að hv. þingmaður nefndi Helguvík er það alveg rétt sem fram kemur hjá honum að þar er búið að útbúa gríðarlega áhugavert svæði fyrir atvinnurekstur. Það er mjög dapurlegt ef ekki verður af þeirri stálpípuframleiðslu sem reiknað hafði verið með sem ég held að ekki sé endanlega búið að afskrifa. Það er vissulega mál sem iðnaðarráðuneytið kom að með sveitarfélögum á Suðurnesjum. Við reynum alltaf að leggja okkur fram þegar einhverjar nýjungar eru í boði en stundum fer það ekki eins og áform eru uppi um og það er náttúrlega verra. Ég ítreka bara að við erum alltaf reiðubúin að taka vel á móti góðum málum.