131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Umferðaröryggismál.

[15:32]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Einn er sá málaflokkur sem ég held að þingheimur geti alveg verið sammála um að sé mjög mikilvægur og hefur nokkuð verið í umræðunni í tengslum við umræðu um samgönguáætlun en það eru umferðaröryggismál. Mig langaði til að spyrja hæstv. samgönguráðherra tveggja spurninga í tengslum við þau.

Annars vegar vil ég spyrja hann út í EuroRAP-verkefnið, vegrýmisverkefnið, hver staða þess sé á Íslandi, hvort samgönguráðherra hafi áhuga á að skoða það, hvort það hafi verið gert innan ráðuneytisins, hver staða þess verkefnis sé og nálgun ráðherrans hvað það varðar. Til upplýsingar fyrir þingheim er EuroRAP verkefni sem farið var af stað með árið 2000 og hefur núna verið tekið upp í mjög mörgum löndum í Evrópu. Það er samstarfsverkefni margra aðila sem hafa það að markmiði að bæta umferðaröryggi eftir ákveðnum aðferðum sem of langt mál er að fara í gegnum í þessari stuttu fyrirspurn. En í stuttu máli hefur gengið afskaplega vel í öðrum löndum og engin ástæða er til að ætla annað en að það sama gæti átt við hér á landi.

Síðan vildi ég líka spyrja hæstv. ráðherra, virðulegi forseti, þeirrar spurningar hvort árangur sé talinn hafa náðst með störfum rannsóknarnefndar umferðarslysa á liðnum árum, og hvernig sér ráðherra fyrir sér að vinna að umferðaröryggismálum þróist á næstu árum?