131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Umferðaröryggismál.

[15:37]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þær ábendingar sem fram komu í fyrirspurn hans sem vekja auðvitað rækilega athygli á því hversu mikilvægt það er fyrir okkur að fá alla aðila saman að einu borði til að vinna að þessum umferðaröryggismálum. FÍB hefur svo sannarlega lagt sitt fram í þeim efnum.

Umræður um umferðaröryggismálin eru nauðsynlegar. Ég vil bara ítreka og undirstrika það sem ég sagði fyrr, ég bind miklar vonir bæði við þetta EuroRAP-verkefni og það samstarf við alla aðila og ekki síður það starf sem á vegum rannsóknarnefndar umferðarslysa á að fara fram í framtíðinni. Það verður að sjálfsögðu liður í því að auðvelda Vegagerðinni og Umferðarstofu það mikilvæga verkefni að auka umferðaröryggi á þjóðvegum landsins, ekki síður en í gatnakerfi þéttbýlisins.