131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Loftferðir.

699. mál
[16:16]

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. samgönguráðherra hefur fylgt úr hlaði breytingartillögum við loftferðalög sem aðallega eru um innleiðingu eða aðlögun að reglum Evrópusambandsins á sviði flugverndar og flugöryggismála auk annarra alþjóðlegra krafna á því sviði. Má segja að á mínum fyrsta þingdegi eftir hálfs mánaðar fjarveru vegna starfa í nefnd á vegum Alþingis erlendis — maður sem hefur m.a. setið í flugvél í 18 klukkustundir til að komast á áfangastað, ekki þó í einni ferð, eða tekið allt að 30 klukkustunda ferðalag, farið í gegnum þau öryggishlið og annað sem boðið er upp á — hafi ég töluverðan áhuga á flugöryggismálum og sé sammála því að þau séu samræmd og farið yfir þau eins og hér er verið að gera. Með öðrum orðum er ánægjulegt að Evrópusambandið skuli vera í fylkingarbrjósti við það að búa til samræmdar reglur fyrir hið evrópska svæði og eins að við séum að leiða þær í lög. Það er ánægjulegt vegna þess að ekki veitir af að auka flugvernd.

Ýmsar fréttir berast mönnum af alls konar vá sem getur skapast í flugi, bæði vegna flugumsjónar og flugstjórnunar og þeirrar miklu flugumferðar sem er í háloftunum núna. Umferðin hefur aukist mjög mikið eins og hér er m.a. getið um, ef ég man rétt um allt að 50% síðasta áratug og áætlað að hún tvöfaldist til ársins 2020, þ.e. flugumferð bara á Evrópusvæðinu. Þá er auðvitað mjög mikilvægt að þetta sé samræmt. Við fyrstu yfirferð mína á því frumvarpi sem hæstv. ráðherra hefur flutt sé ég ekki annað en að við séum á góðri leið með því að taka upp þau ákvæði sem Flugöryggisstofnun Evrópu er að beita sér fyrir að samræma. Við samþykktum m.a. á Alþingi á síðasta ári að taka upp að það verði gert á þann hátt sem hér er lagt til. Ég hef ýmsa fyrirvara um einstök atriði sem eiga eftir að koma betur fram í hv. samgöngunefnd.

Ég vil segja, virðulegi forseti, að ég rek mig a.m.k. tvisvar sinnum á galla í frumvarpinu. Hér er t.d. vitnað í flugöryggismál, í tilkynningu um flugatvik er vitnað til 14. gr. sem er nú orðin 12. gr. þannig að ég ímynda mér að einhverju hafi verið samþjappað á einhverju stigi en þá gleymst að breyta þessu. Jafnframt er vitnað í lög um loftferðir frá 1988 en þau lög eru frá 1998. Þetta eru vonandi smámunir, virðulegi forseti. Ég vildi samt sem áður nefna það hérna vegna þess að það er frekar óvenjulegt að svona sé, en auðvitað er þetta bara smálagfæring sem þarf að gera og er ekki stórt mál. Villurnar eru í athugasemdunum við frumvarpið.

Eins og ég sagði áðan, virðulegi forseti, er þetta gert í framhaldi af vinnu starfshóps á vegum samgönguráðuneytis með fulltrúum Flugmálastjórnar. Við Íslendingar erum aðilar að Flugöryggisstofnun Evrópu, EASA eins og hæstv. ráðherra kaus að kalla þessa skammstöfun, sem kemur þá í staðinn fyrir Flugöryggissamtök flugmálastjórna Evrópu, JAA. Þetta er allt hið besta mál og er verið að vitna til og setja í lög okkar þessar samræmdu aðgerðir.

Það eru þó nokkur atriði, virðulegi forseti, sem ég á örugglega eftir að fara betur yfir við þessa samræmingu á reglum sem töluverð vinna er við, meðal annars frá Evrópu, og setja inn í þetta samræmda kerfi. Eins og hér hefur líka komið fram er reiknað með að búa til samræmdan gagnagrunn sem Flugmálastjórn og aðrir sem láta sig flugöryggismál og flugmál varða geta farið í til að skoða atvik sem eiga sér stað í einu landi, hvort það sé eitthvað sem viðkomandi aðilar geta breytt hjá sér til að fyrirbyggja að slík óhöpp gerist. Þetta er auðvitað mjög mikilvægt atriði.

Hér er líka fjallað um að það sé óheimilt að færa nöfn tilkynnenda í gagnagrunninn, þeirra sem tilkynna flugatvik, og að vinnuveitendum sé óheimilt að beita starfsmenn viðurlögum vegna slíkra tilkynninga. Þetta tel ég mjög mikilvæga vernd, virðulegi forseti, fyrir þá sem láta vita um svona atvik sem væntanlega verða til þess að flugöryggi eykst, atvik sem flugmenn eða starfsmenn flugumsjónar eða aðrir láta vita af. Það er mikilvægt að þeir hafi vernd fyrir því að vera ekki hreinlega reknir eða teknir á teppið fyrir að láta vita af svona atriðum. Auðvitað eigum við alltaf að vera á varðbergi. Það er best að geta verið í fyrirbyggjandi aðgerðum, að við þurfum ekki að fá einhvers konar flugóhapp eða flugslys til að læra af slíku til að bæta öryggi flugfarþega sem ekki veitir af. Þetta snýst sem sagt um flugöryggi og flugatvik og ég held að það sé það sem vitnað er til í 12. gr. þessa frumvarps.

Hér er í athugasemdum líka talað um að tekin verði upp ákvæði um flugafgreiðslu og eins um afkastagetu flugvalla og mig langar að spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort það sé fyrirsjáanlegt að þessi tvö atriði geti t.d. haft einhver áhrif á Keflavíkurflugvöll, hvort þau kalli á miklar breytingar, mikil fjárútlát við eitthvað annað og meira en stefnt er að núna við að taka þetta upp. Eða er þetta trygging Evrópusambandsins fyrir því að þeir sem reka slíkar flugafgreiðslur og flugvelli séu skyldugir til að veita nýjum aðilum fulla þjónustu? Fyrir nokkrum árum kvörtuðu nýir aðilar á markaði, eins og lággjaldaflugfélög, yfir þjónustu í flugafgreiðslum og á flugvöllum vegna þess að stóru aðilarnir sem voru þar fyrir reyndu að spyrna fótum við því að nýir aðilar kæmu á markaðinn.

Þegar ég segi þessi orð, virðulegi forseti, fer ég að hugsa um hversu langt sé síðan þetta átti sér stað. Það er ekkert mjög langt síðan menn notuðu alls konar hindranir til að koma í veg fyrir að nýir sprotar kæmust inn á markaðinn. Það er sem betur fer búið, vonandi, og er auðvitað hluti af þeirri auknu flugstarfsemi sem á sér stað víða um heim, kannski sérstaklega í Evrópu þar sem við þekkjum best til, þ.e. lággjaldaflugfélögin sem hafa komið inn og gera það að verkum að fólk ferðast miklu meira nú en áður. Það kostar með öðrum orðum ekki eins mikið að ferðast nú t.d. frá Keflavík til Kaupmannahafnar sem er töluvert miklu ódýrara en að ferðast frá Reykjavík til Vopnafjarðar svo að dæmi sé tekið.

Þá er það nýmæli og ég fagna því að það skuli vera sett inn í frumvarpið, þ.e. 13. gr., ákvæði um styrkveitingar í flugi sem byggist á reglugerð Evrópusambandsins frá 23. júlí 1992 um aðgang bandalagsflugfélaga að flugleiðum innan bandalagsins. Þetta höfum við notað hér, styrkveitingar á flug til tiltekinna staða, og höfum fengið heimild stóra bróður í Brussel, Evrópusambandsins, fyrir því. Það er ekki nema gott eitt um það að segja að þetta skuli vera gert. Það er þekkt víða um Evrópu að það þurfi að styrkja flug til afskekktra staða eða minni staða þar sem flugfélög treysta sér ekki til að halda uppi flugi nema með fjárveitingu frá hinu opinbera til að það geti haldið áfram. Þetta höfum við gert hér og ég fagna því, og ég fagna því að þetta sé sett í lög. Það er stundum rætt um það, þó að ég vilji ekki fara út í þá sálma, að styrkveitingar í alls konar flutningastarfsemi, hvort sem er með fólk eða vörur, séu vel þekkt fyrirbæri hjá Evrópusambandinu og ég verð að segja að ég harma það að sú leið skuli ekki hafa verið notuð til að kanna með áframhaldandi strandsiglingar hér á landi. En við erum ekki að ræða strandsiglingar í þessu frumvarpi.

Virðulegi forseti. Það kemur fram líka að við Íslendingar höfum sérstaka aðlögun að ákveðinni reglugerð Evrópuþingsins nr. 2320/2002, frá 16. desember 2002. Ef ég skil rétt er það m.a. vegna sérstöðu Íslands þar sem innanlandsflugið er undanskilið þessari reglugerð. Því spyr ég hæstv. samgönguráðherra hvað gerist ef við neyðumst til að flytja miðstöð innanlandsflugs frá Reykjavík til Keflavíkur. Getur þá verið að allt aðrar og miklu meiri kröfur vegna flugöryggismála muni dúkka upp, ef svo má að orði komast? Þegar við förum í gegnum Reykjavíkurflugvöll í dag gengur allt tiltölulega fljótt fyrir sig. Ég þekki það frá flugi ekki alls fyrir löngu að þegar ófært var á Reykjavíkurflugvelli þurfti að fara til Keflavíkurflugvallar og ýmislegt tók þar lengri tíma. Er ég þá ekki að tala um ferðatímann heldur ýmislegt þar til hliðar. Ég vil spyrja hæstv. samgönguráðherra: Ef það yrði þannig að innanlandsflug og utanlandsflug færu fram á sama flugvelli í gegnum sömu flugstöð, koma þá upp allt aðrar kröfur að hans mati gagnvart því að tékka sig inn og fara í gegnum flugstöðina sjálfa? Það er ákaflega mikilvægt, virðulegi forseti, að fá svör við þessu. Það varðar ferðatímann sem breytist ef við getum ekki flogið lengur frá Reykjavíkurflugvelli í aðskildu flugi innan lands frá millilandafluginu.

Ég held að ég sé bara með eina spurningu enn til hæstv. samgönguráðherra. Við það að taka þessa reglugerð alla upp, er þá fyrirsjáanlegt að kostnaður við rekstur einstakra flugvalla á Íslandi, hvort sem það er Keflavíkurflugvöllur, Reykjavíkurflugvöllur eða hinir litlu flugvellir úti um landið, muni aukast eitthvað við þetta atriði?

Rétt að lokum, virðulegi forseti, um það sem snýr að 9. gr. þessa frumvarps, þ.e. kröfu um vopnaða verði um borð í flugvélum í almenningsflugi. Ég tek undir með mönnum og segi: Auðvitað fara menn ósjálfrátt að skjálfa eða út sprettur kaldur sviti þegar maður les það og hugsar til þess að vopnaðir verðir þurfi kannski að ferðast með manni í flugvél. Vegna þess að ég vitnaði í langt flug mitt og annarra félaga minna á Alþingi nýlega með ýmsum flugfélögum sem ég varla kann að nefna á nafn er ansi sérstakt að segja það að auðvitað hafði maður á tilfinningunni að ákveðnir farþegar í því flugi væru öryggisfulltrúar viðkomandi flugfélags. Hvort þeir hafa verið með vopn í belti eða annað skal ég ekki segja til um. En auðvitað er það hryllileg staðreynd að við þurfum að hafa þann möguleika. Ég er hræddur við þetta ákvæði en styð það engu að síður að heimildin sé fyrir hendi. Okkar mikla flugstarfsemi í vesturátt, til Bandaríkjanna, má ekki líða fyrir það ef Bandaríkjamenn setja algert stopp á okkur hvað þetta varðar sem ég vona að verði aldrei, ég tek það skýrt fram. Samt sem áður er ég miðað við fyrstu yfirferð hlynntur því að þetta ákvæði sé inni en það sé háð þeim ströngu skilyrðum sem hér eru sett fram af hálfu samgönguráðherra. Þetta er ákaflega mikilvægt atriði því að eins og ég sagði áðan er það hryllingur að við skulum þurfa að ræða um að setja í lög að það geti verið nauðsyn að vera með vopnaða verði um borð í farþegaflugvélum.

Virðulegi forseti. Þetta var það helsta sem ég vildi segja í fyrstu atrennu um þetta frumvarp. Þar sem ég á sæti í samgöngunefnd gefst vonandi betri tími, þó að stutt sé eftir af störfum þingsins, til að ræða þetta mál frekar. Ég vona og vænti þess að sú nefnd sem þetta hefur unnið, m.a. með Flugmálastjórn, sé búin að fara yfir alla þá þætti sem skipta máli og að við séum sannfærð um að við séum að stíga góð skref, hvorki of né van, í þessum flugöryggismálum. Alltaf munum við taka flugöryggi og flugvernd fram yfir ýmislegt annað, eins og t.d. þetta sem ég var að nefna með vopnaða verði.