131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Loftferðir.

699. mál
[16:48]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get mjög heils hugar tekið undir það með hv. þingmanni að við eigum ekki að efna til óþarfakostnaðar vegna almannaþjónustu. Það kveður alveg við nýjan tón að heyra það frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að hann skuli ýta við okkur hvað það varðar, og er það vel.

Bara til að undirstrika það vil ég segja að auðvitað gilda sömu reglur um flugumferðarþjónustu hvar sem er yfir landinu og hvar sem er yfir flugvöllum landsins þannig að það er aðeins einn réttur í þeim efnum og hann er sá sem búinn er til á forsendum þeirra breytinga sem þetta frumvarp felur í sér. Ég vil undirstrika það sérstaklega þannig að ég tel að það að taka þessar reglur upp sem frumvarpið gerir ráð fyrir, sem eru unnar á forsendum þess regluverks sem við höfum verið þátttakendur í að skapa á vettvangi Evrópusamstarfsins, sé af hinu góða. Það eykur öryggið í þessari þjónustu.