131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Skipan ferðamála.

735. mál
[17:04]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hér er um að ræða er að í staðinn fyrir að samgönguráðuneytið sinni þessu eftirlitshlutverki og útgáfu leyfa til ferðaskrifstofa og þeirra sem sinna ferðaþjónustu teljum við eðlilegt að Ferðamálastofa sem kallast Ferðamálaráð í dag sinni þessum verkefnum. Ég tel að þau séu út af fyrir sig ekki til skiptanna og það sé í fyllsta máta eðlilegt að Ferðamálaráð sinni þeim. Ferðamálaráð er staðsett á tveimur stöðum á landinu, í Reykjavík og á Akureyri, með öfluga starfsstöð á Akureyri, og við í samgönguráðuneytinu teljum að það sé í samræmi við góða stjórnsýsluhætti að koma því þannig fyrir að neytandinn, sá sem er undir þá sök seldur að þurfa að leita eftir leyfum, í þessu tilviki til Ferðamálastofu, geti þá kært niðurstöður, afgreiðslur, úrskurði Ferðamálastofu til æðra setts stjórnvalds, ráðuneytis í þessu tilviki. Það er af þessari ástæðu.

Við erum stöðugt að bæta stjórnsýsluna í landinu og það á ekkert skylt við vilja til að færa verkefni út um land sem hér er verið að gera, heldur fyrst og fremst verið að bæta stjórnsýsluna. Ég teldi á engan hátt eðlilegt eða heppilegt að lögreglustjórarnir í landinu færu að sinna útgáfu á leyfum til ferðaskrifstofa og þyrftu að fara að byggja upp sérþekkingu á þeim sviðum vítt og breitt um landið.