131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Skipan ferðamála.

735. mál
[17:17]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, það má margt um það segja þegar hagsmunasamtök álykta úti í bæ um nauðsyn þess að ríkið leggi meiri fjármuni til starfseminnar. Ég má til með að rifja það upp að við tífölduðum framlög til aðgerða á fjölförnum ferðamannastöðum árið 2000 þegar afgreiddum fjárlögin og ég minnist ekki sérstakra ályktana í tengslum við það. Á árunum 2002, 2003 og 2004 var stóraukið framlag til markaðsaðgerða og landkynningar sem bar árangur, eins og ég nefndi áðan.

En á Alþingi vinnum við að frumkvæði ríkisstjórnar eftir svokölluðum rammafjárlögum. Samgönguráðherra á úr vöndu að ráða þegar hann raðar síðan fjárveitingunum innan þessa ramma. Það var mitt mat að mikilvægara væri að nota peninga innan þess ramma til að fjölga ferðum Herjólfs og fjölga styrktum flugferðum innan lands en að halda áfram nákvæmlega á þeirri braut sem við höfum gert með framlögum til landkynningar og markaðsaðgerða. Við efldum innlendu ferðaþjónustuna með því að fjölga ferðum Herjólfs og styrkja flugferðir innan lands. Ég tel að það hafi borið árangur. Ég stórefast um að þingmaðurinn sé þessari skiptingu ósammála. Við höfum ákveðna fjármuni, við verðum að gera upp á milli og þessi varð niðurstaðan.