131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Skipan ferðamála.

735. mál
[17:19]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það eru margir fletir á málefnum ferðamála og ferðaþjónustunnar sem vert er að ræða og skoða þegar frumvörp og þingsályktanir koma fram sem fjalla um þau mál enda hefur uppgangurinn í greininni verið mikill á undanförnum árum, undanförnum áratugum má segja, eins og ég sagði áðan í andsvörum við hæstv. ráðherra. Það er fróðlegt að skoða tölur aftur í tímann um umfang ferðaþjónustunnar í íslensku atvinnulífi og íslensku samfélagi og bera saman milli ára og áratuga. Það hefur orðið algjör stökkbreyting á fáeinum áratugum og því ber í sjálfu sér að fagna, enda má einnig benda á að helstu sóknarfæri dreifbýlisins, hinna dreifðu byggða allt í kringum suðvesturhorn Íslands, felast ekki síst í ferðaþjónustunni. Hafa mjög margir þar nýtt sér þau tækifæri og byggt upp öfluga ferðaþjónustu til að mæta þeim atvinnuvanda sem steðjaði eðlilega að mörgum byggðum eftir að hinar hefðbundnu greinar fóru að láta undan, þjappast á færri hendur og öll umgjörð landbúnaðar og atvinnuhátta í dreifbýlinu fór að breytast. Margir hafa nýtt sér þau miklu tækifæri og sóknarfæri sem er að finna í ferðaþjónustunni.

Mig langar að benda á nokkrar athyglisverðar tölur um komur, t.d. til Keflavíkurflugvallar á síðustu árum og hvernig aðilum innan ferðaþjónustunnar hefur tekist að auka jafnt og þétt ferðamannafjöldann allt árið um kring, fjölga hingaðkomum yfir veturinn sem er náttúrlega meginmálið, að lengja tímann. Það skortir svolítið festuna í atvinnugreinina sem byggir á miklum törnum yfir sumartímann en liggur mikið til niðri yfir veturinn. Störfin eru mönnuð með sumarstarfsfólki og þeim sem eru þar í vinnu í skemmri tíma. Í janúar árið 2000 komu til Keflavíkurflugvallar tæplega 17.800 farþegar en fjórum árum síðar voru þeir orðnir 27 þús., þ.e. 10 þús. farþegum fleiri. Aukningin var augljóslega mjög mikil á þessum fáu árum.

Samtals hafa komur á Keflavíkurflugvöll aukist úr 540 þús. árið 2000 yfir í tæp 700 þús. árið 2004. Það eru mikil tækifæri í ferðaþjónustunni sem við þurfum að nýta okkur vel en það eru einnig blikur á lofti. Þá er um að gera að taka mið af ástandinu og því sem fram hefur komið í umræðunni upp á síðkastið. Var athyglisverð samantekt um gjaldþrotatíðni í ferðaþjónustunni sem Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, og Björk Ólafsdóttir, fjármálastjóri Lánstrausts, kynntu fyrir skömmu. Brá þá mörgum við að uppgötva hve viðkvæmt ástandið er innan greinarinnar. Á málþingi Samtaka ferðaþjónustunnar um virði ferðaþjónustunnar 17. febrúar komu fram margar tölfræðilegar upplýsingar sem voru mjög athyglisverðar, svo að vægt sé til orða tekið, og ástæða er til að taka mið af þeim þegar við fjöllum um skipan ferðamála til framtíðar. Þetta voru mjög mikilvægar og athyglisverðar tölur. Kom t.d. fram að á síðasta ári hefðu verið skráð 527 árangurslaus fjárnám og gjaldþrot í ferðaþjónustunni. Þó að samtalan segi ekki til um fjölda fyrirtækja að baki tölunum hefur hún þýðingu þegar þetta er skoðað sem hlutfall af heild. Sá er einmitt mergurinn málsins en fjárnám í ferðaþjónustunni eru um 10% af öllum fjárnámum sem gerð eru hér á landi. Ef skoðaður er fjöldi fyrirtækja sem fer í gjaldþrot er vægi ferðaþjónustunnar tæp 9%, langtum hærra hlutfall en vægi greinarinnar í þjóðarbúskapnum gefur til kynna og ætla mætti.

Ekki liggja fyrir neinar rannsóknir á þessu en margt bendir til að kennitöluflakk sé hlutfallslega algengara í þessari grein en öðrum, því er a.m.k. haldið fram. Þótt kennitöluflakkarar séu fáir og standi einungis undir litlum hluta heildarveltu í greininni er ljóst að þeir skaða bæði ímynd hennar og samkeppnisumhverfið. Þarna þykir kominn stærsti þátturinn sem fælir fjárfesta frá greininni. Mikill vöxtur í henni er meðal þess sem ætti að laða fjárfesta að þar sem erlendum ferðamönnum hefur fjölgað um ríflega 8% árlega á síðustu 10 árum og neysla þeirra og gjaldeyristekjur hér á landi hafa að meðaltali aukist um 6% árlega umfram verðbólgu. 6% er verulega mikið, og 8% fjölgun ferðamanna árlega síðustu 10 árin er mikil stígandi þannig að það þykir ljóst að ef svo fer fram sem horfir og byggt verður undir ferðaþjónustuna erum við á grænni grein. Það er hægt með þeim ramma sem við ræðum hér um skipan ferðamála sem ég held að sé að mörgu leyti til bóta um leið og það ber að harma að fjármunir til landkynningar og markaðsmála séu skornir niður. Eins og fram hefur komið er verið að vinna, má segja, gegn hinni miklu aukningu sem er í greininni.

Það er áríðandi að stjórnvöld taki mið af þeirri stöðu sem er uppi. Eins og Samtök ferðaþjónustunnar hafa bent á má halda því fram að gjaldeyristekjurnar á síðasta ári hefðu verið röskum 2 milljörðum meiri ef gengið hefði haldist óbreytt en miklar sveiflur í gengi eru fyrirtækjunum mjög erfiðar. Við erum að tala um allt að 2 milljarða þannig að greinin er að ganga í gegnum nokkuð erfiða tíma meðan hin mikla fjölgun ferðamanna stendur að mörgu leyti undir því og vinnur þar gegn.

Samtökin halda því fram að verulega auknir fjármunir verði að koma til markaðsmála eigi að takast til eins og efni standa til á næstu árum. Um leið og samtökin benda á margt annað sem þyrfti að skoða í samstarfi stjórnvalda og atvinnulífsins sem vænlegar leiðir til að byggja upp farsælt umhverfi í ferðaþjónustunni kallar ferðaþjónustan eftir öflugra samstarfi við hið opinbera og atvinnulífið í heild sinni til að gera hana samkeppnishæfari á alþjóðamarkaði með hagstæðara rekstrarumhverfi, öflugra samstarfi við landkynningu og aukinni og breyttri tölfræði. Um margt má segja að það frumvarp til laga sem við ræðum hér, um skipan ferðamála, sé liður í því. Ef vel tekst til og frumvarpið fer frá Alþingi eins og best verður á kosið er það liður í því að bæta rekstrarumhverfi og efla allar aðstæður í greininni. Það á ekki síst við til að efla öryggi innan greinarinnar og fagmennsku almennt. Þó að víðast sé að sjálfsögðu gætt ýtrasta öryggis og fagmennnskan höfð í fyrirrúmi þekkjum við öll dæmi um að það geti að sumu leyti verið hættulegt eða a.m.k. torfært að komast um Ísland. Stór hluti ferðaþjónustu byggist upp á slíkum ferðaháttum þannig að fyllsta öryggis þarf að gæta í hestaferðum, bátasiglingum, flúðasiglingum og hvers konar slíkum ferðum. Það er nauðsynlegt að efla og skýra rammann.

Þetta frumvarp um skipan ferðamála held ég að sé ágætisskref í þá átt að svo megi verða. Þó munum við að sjálfsögðu skoða það með gagnrýnum augum í nefndinni, bæði hvað varðar leyfi, skráningu og eftirlit, hvernig því verði fyrir komið án þess að verið sé að reisa upp eftirlitsstofnanir eða óhóflegar leyfiskröfur sem gætu hamlað vexti innan þessarar greinar. Ég held samt að víða megi bæta þar úr, að víða sé pottur brotinn og margt megi betur fara innan ferðaþjónustunnar í þeim málum sem lúta að öryggi og fagmennsku hvers konar þannig að greinin megi verða öflugri. Í sjálfu sér er ástæða til að hvetja til þess að þau mál verði skoðuð eins og önnur þegar við lítum yfir sviðið hvað varðar stöðuna í ferðamálum í heild sinni.

Þótt hagsmunaaðilar geri kannski ýtrustu kröfur og seilist eins langt og hægt er til að efla þá grein sem verið er að berjast fyrir kom á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar fram mjög margt athyglisvert sem taka ber mið af. Margt er hægt að læra af því að hlusta á greinina sem í hlut á. Það var t.d. nokkuð afdráttarlaus ályktun um hvalveiðar sem kom fram á aðalfundinum á Grand Hótel 7. apríl sl. þar sem ítrekuð var harkaleg gagnrýni á stefnu stjórnvalda í hvalveiðimálefnum. Fundurinn lagði sérstaka áherslu á að þegar hafi komið fram sterkar vísbendingar um skaðleg áhrif hvalveiða á ímynd landsins og fyrirtæki í ferðaþjónustunni. Fundurinn benti á að möguleikar í útflutningi á hvalkjöti væru litlir sem engir og innanlandsmarkaðurinn nánast horfinn. Skoraði aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar á stjórnvöld að fresta frekari áformum um veiðar á hvölum þar til áhrif veiðanna á ferðaþjónustuna hafa verið rannsökuð til hlítar.

Ég held að fram hjá svo afdráttarlausum varnaðarorðum sé ekki hægt að líta og ástæða sé til að draga fram í umræðu um skipan og tilhögun ferðamála hvort stjórnvöld séu að stórskaða greinina, t.d. með hvalveiðistefnu sinni. Það er vert að það komi fram við þessa umræðu að þar er ástæða til að stíga varlega til jarðar og velta fyrir sér hvort verið sé að fórna töluverðum hagsmunum fyrir minni eða enga. Það er ástæða til að ræða þau mál í þessu samhengi.

Ég vil aftur ítreka það við hæstv. ráðherra og stjórnvöld, af því að við erum að ræða þessi mál hérna, að við eigum að mæta þeim mikla vexti sem hefur verið í ferðaþjónustunni á síðustu árum. Á síðasta ári fjölgaði t.d. erlendum ferðamönnum um 13,5% og gistinóttum um 7% á landsvísu. Greinin verður þar af leiðandi alltaf mikilvægari og mikilvægari fyrir íslenskt þjóðarbú. Ferðaþjónustan er þegar orðin ein af öflugustu stoðunum í íslensku atvinnulífi og aflaði á síðasta ári um það bil 40 milljarða kr. í erlendum gjaldeyri, allt saman tekið, með fargjöldum og gjaldeyristekjum innan lands, 40 milljarða kr. Þetta er orðið mikið afl í íslensku atvinnulífi sem skiptir verulegu máli, orðin ein af meginstoðum okkar. Spurning er líka hvernig greininni muni farnast á næstu árum þegar þessi ofsafengna stóriðjustefna stjórnvalda fer að líta betur dagsins ljós og áhrif hennar að koma fram á ferðaþjónustuna. Maður spyr hvort þessi harðskeytta stóriðjupólitík hljóti ekki á einhverjum tímapunkti að skaða verulega ferðaþjónustuna. Menn hljóta að horfa mjög til þess að fylgjast með áhrifum hinna miklu stóriðjuframkvæmda á ferðaþjónustuna víða um land. Ferðaþjónustan er að sjálfsögðu mjög verðmæt og viðkvæm grein sem stóriðjan getur raskað verulega og unnið gegn. Það fer ekki mjög vel saman í mörgum tilfellum að byggja stóriðju víða og efla ferðaþjónustuna. Það hlýtur að koma inn í þessa umræðu hér hvernig eigi að mæta því.

Ég vil aftur, virðulegi forseti, nota þetta tækifæri til að skora á stjórnvöld að bregðast við fram komnum áhyggjum þeirra sem eru að vinna í greininni af niðurskurði stjórnvalda á framlögum til markaðs- og landkynningarmála í ferðaþjónustunni. Þetta er algjört lykilatriði. Grundvallaratriði í uppbyggingu ferðaþjónustu til framtíðar hlýtur að vera öflugt landkynningarstarf þar sem hið opinbera og atvinnulífið taka höndum saman um að byggja grunninn undir ferðaþjónustuna þannig að hún geti áfram skilað okkur þessum mikla ábata í þjóðarbúið, og miklu meiri ábata. Ef uppgangur hennar verður með þeim hætti sem við höfum horft á núna á síðustu árum styttist í að erlendir ferðamenn nái tölunni 1 milljón, innan ekki svo margra ára. Ég held að það sé áríðandi að taka mark á þessum ályktunum. Það er ekki verið að ræða um svo gríðarlega fjármuni að það skipti sköpum, heldur er um að ræða ákveðna forgangsröðun í umsvifum hins opinbera. Það er ástæða til að skora á stjórnvöld að efla aftur markaðssóknina sem var í ágætum málum fyrir nokkru síðan. Ég held að það sé mál manna að við Íslendingar höfum mætt nokkuð vel þeim áhrifum sem blöstu við okkur af hryðjuverkunum hrikalegu þann 11. september 2001 og þeim samdrætti sem þá blasti við í ferðaþjónustunni almennt.

Ég vil aftur skora á stjórnvöld að efla markaðssóknina. Þetta skilar árangri, getur skilað okkur miklu meiri ábata en nemur þeim fjármunum sem við verjum til þess þannig að sátt ætti að geta náðst um.