131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Skipan ferðamála.

735. mál
[17:35]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Hér ræðum við frumvarp um skipan ferðamála og um það er ýmislegt að segja en ég vil byrja ræðu mína á því að vara við því að búa til enn eina stjórnsýslustofnunina í stjórnkerfinu. Ég hefði talið miklu nær að flytja eftirlitsverkefni til þeirra stofnana sem fyrir eru í landinu í stað þess að stofna enn eina eftirlitsstofnunina. Mér finnst það ekki lofa góðu.

Hér var stofnuð Fiskistofa. Þar var lagt upp með að störfin yrðu ekki fleiri en 11 en þau eru orðin nokkuð fleiri. Hér er svo einmitt verið að leggja til enn eina stofnunina og það er ekki rétt sem hæstv. ráðherra sagði, að ég hefði ekki lesið frumvarpið. Ég vona að hann taki tillit til þessarar gagnrýni og skoði í alvöru hvort ekki beri að færa þessi verkefni til sýslumannanna í landinu í stað þess að búa til enn eina stjórnsýslustofnunina.

Það sem þessari eftirlitsstofnun, Ferðamálastofu, er ætlað að skrá er oft og tíðum það sama og sýslumennirnir í landinu eru að skrá fyrir viðkomandi fyrirtæki. Þess vegna ættu menn að skoða með opnum huga að bæta þeim þáttum sem þessu frumvarpi er ætlað að taka á við verksvið t.d. sýslumannanna í stað þess að búa til enn eina stofnunina og skrá sömu hlutina á fjölmörgum stöðum í stjórnkerfinu. Ég geri t.d. ráð fyrir að sýslumennirnir séu að skrá nafn, starfsemi, kennitölu, heimilisfang, rekstrarfyrirkomulag, nafn og kennitölu forráðamanns og ítarlega lýsingu á starfsemi skv. 13. gr. Ég hugsa að það komi fram hjá sýslumanni. Menn eiga að skoða hvort ekki sé hægt að hagræða í opinberum rekstri en það er eins og að það sé ekkert á dagskrá hjá ríkisstjórninni, enda hefur hið opinbera blásið gríðarlega út á síðustu árum.

Á síðustu örfáum árum hefur Sjálfstæðisflokkurinn aukið hlut hins opinbera um heil 10%. Þess vegna er ég nokkuð hissa á því að hæstv. ráðherra taki ekki þessum ábendingum vel og skoði það í alvöru að færa þessi verkefni til sýslumannanna í landinu. Það er einmitt verið að skoða hvaða verkefni þeir geti tekið að sér. Í stað þess að fækka sýslumönnunum væri vert að láta þá njóta þeirra verkefna að skrá niður ýmis atriði sem koma við rekstri á þeim stöðum þar sem reksturinn er. Ég tel það miklu nær í staðinn fyrir að stofna einhverja eftirlitsstofnun. Svo fara menn að slást um það hvar hún eigi að vera staðsett, hvort hún eigi að vera á tveimur stöðum og eitt og annað. Það er sérstaklega einkennilegt þegar verið er að skrá nánast sömu hlutina hjá margvíslegum stofnunum í kerfinu, ef frá er talin tryggingarskylda. Ég hefði talið rakið fyrir sýslumennina að bæta því verkefni á sig. Menn eiga að vera opnir fyrir því að einfalda stjórnsýslu í landinu en það var því miður ekki að heyra á hæstv. ráðherra.

Menn eru að tala um að það þurfi aukið fjármagn inn í greinina til kynningar. Auðvitað getur það hjálpað starfseminni að einhverju leyti en það eru aðrir þættir sem ber miklu frekar að horfa á, t.d. hátt gengi krónunnar og hvernig hægt sé að minnka þann skaða sem fyrirtækin verða þannig fyrir. Það þarf að ræða, og einnig t.d. áfengisgjaldið. Ferðaþjónustunni mundi koma það verulega vel ef stjórnvöld lækkuðu áfengisgjaldið. Við erum með meira en tvöfalt hærra áfengisgjald en er í Bretlandi og margfalt hærra en annars staðar á Norðurlöndum. Ég held að hagur ferðaþjónustunnar batni ekkert við það að búa til enn eina eftirlitsstofnunina sem Sjálfstæðisflokkurinn er að koma á fót. Það væri miklu nær að horfa til þeirra þátta að spara í útgjöldum ríkisins og vita hvort þá mætti ekki lækka eitthvað gjöldin á ferðaþjónustuna, t.d. áfengisgjaldið. Síðan hafa menn verið að ræða ýmsa aðra þætti, t.d. hvort veitingahús gætu greitt áfengisgjaldið eftir á Það er einn möguleikinn. Þá lægju þau ekki með stóran lager sem þau væru búin að greiða skatt af fyrir fram. Það er einn þáttur sem tíðkast annars staðar, að menn greiði skattinn af áfenginu um leið og varan er seld. Það væri einn möguleikinn.

Einnig verða menn að horfa til þess að þó að lág skattprósenta á hagnað fyrirtækja komi atvinnulífinu til góða kemur virðisaukaskatturinn ferðaþjónustunni verulega illa. Vegna þess að hann er miklu hærri en í samkeppnislöndunum veldur hann því að vöruverð er hærra og þess vegna tel ég miklu nær að horfa til þess að lækka eitthvað útgjöld ríkisins, reyna það eftir fremsta megni og reyna þá eitthvað að lækka álögur á atvinnuvegina og fólkið í landinu. Mér finnst það miklu nær.

Ferðaþjónustan er að umfangi mikilvæg í gjaldeyrisöflun en því miður er hagnaðurinn ekki mikill af greininni. Menn verða að fara að ræða í alvöru hvað það er sem kemur ferðaþjónustunni vel og hvernig megi þá hagræða í hinu opinbera í stað þess að taka því illa eins og hæstv. ráðherra gerði þegar honum var bent á að það væri kannski vitleysa að vera að skrá sömu fyrirtækin á fjölmörgum stöðum. Þegar hv. þingmenn benda viðkomandi ráðherra á að hægt sé að ná fram sparnaði og ýmsum markmiðum sakar hann þá um að þeir hafi ekki lesið ákveðin frumvörp. Mér finnst það alger fásinna.

Ég tel að það eigi að líta til þess að þessi atvinnugrein geti vaxið og dafnað, við eigum að gera allt til þess og horfa með opnum hug til þess hvaða breytingar geta orðið atvinnugreininni til góða.