131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Skipan ferðamála.

735. mál
[17:45]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Heimildin sem ég notaði kemur beint frá samgönguráðuneytinu og er um meginmarkmið í ferðamálum. Þar er m.a. fjallað um áfengisgjaldið og þar kemur fram að á Íslandi er það orðið tífalt hærra en í Danmörku. Það er nefnilega mergurinn málsins. Þótt hann greiði álíka hátt verð og í Danmörku þá situr meira eftir hjá veitingamanninum. Það er einmitt það sem við þurfum á að halda í atvinnurekstri, að það sitji eitthvað eftir í atvinnurekstrinum og myndist gróði. Það er mikilvægt.

Ég vona að hv. þingmaður sjái að þeir sem selja bjór á Íslandi hagnast ekki eins og þeir sem selja bjór í Danmörku. Ég hefði talið mikilvægt að atvinnugreinin hagnaðist af sölunni en ég get upplýst hv. þingmann um að bjór er samt sem áður ódýrari í Danmörku á ýmsum stöðum en hér. Auðvitað er þetta breytilegt en það er ekki hægt að líta fram hjá því að ferðamenn sem koma til Íslands frá Bandaríkjunum og eru krafðir um 10 dollara fyrir bjórglasið er nóg boðið. Það verður að vera eitthvert samræmi í þessu.

Ég horfi til Bretlands. Ég er ekki að tala um að menn fari niður úr öllu valdi með áfengisgjaldið heldur að maður sjái einhverja þróun í átt að því sem er í samkeppnislöndunum. Mér finnst það eðlilegt.