131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Skipan ferðamála.

735. mál
[17:47]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Hæstv. samgönguráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um skipan ferðamála og það verður að segjast að samgönguráðherra hefur tekið nokkuð heildstætt á málefnum ferðaþjónustunnar. Það er í raun sannarlega tímabært að tekið sé á málum ferðaþjónustunnar sem alvöruatvinnugreinar í landinu enda er hún rækilega búin að hasla sér völl og er jafnvel annar eða þriðji stærsti útflutningsatvinnuvegur þjóðarinnar, a.m.k. þegar horft er til nettóþjóðartekna.

Það er fyllilega tímabært að sett séu heildarlög eða heildarrammi um þessa gríðarlega mikilvægu atvinnugrein. Henni er jú líka nauðsyn að fá forgang að þeim auðlindum, bæði verndun og nýtingu þeirra, sem hún byggir á vöxt sinn og viðgang. Þetta hefur núna verið gert.

Fyrir nokkru síðan var mælt fyrir þingsályktunartillögu um ferðamál sem byggð var á skýrslu sem unnin var af hópi á vegum samgönguráðuneytisins, um meginmarkmið í ferðamálum á árunum 2006–2015. Ég tel að þessi nálgun sé mjög virðingarverð.

Á þingi höfum við áður, í umræðu um ferðamál og áðurnefnda þingsályktunartillögu, rætt um forgangsröðun varðandi ferðamál. Þar er í forgangsröðinni sett sem liður nr. 1, að náttúra Íslands, menning þjóðarinnar og fagmennska verði ráðandi þættir í þróun íslenskra ferðamála. Ég tel viss tímamót að slíkar áherslur séu settar í forgang í íslenskri ferðaþjónustu, atvinnugrein sem er að verða önnur eða þriðja stærsta útflutningsgreinin og sú grein sem vex hvað hraðast hér á landi. Ferðaþjónustan er einnig sú grein sem skilar hvað mestum þjóðhagslegum ábata af starfsemi sinni. Hún hlýtur því að geta gert kröfur til stjórnvalda um forgangsröðun á verkefnum.

Eins og þessi tillaga til þingsályktunar er lögð upp, með áherslu á náttúru Íslands, menningu þjóðarinnar og fagmennsku, er ljóst að hún fer ekki saman með stóriðjuáformum hinna ráðherranna í ríkisstjórninni né heldur stórvirkjanaáformum þeirra. Að því leyti hafa hagsmunir ferðaþjónustunnar verið fyrir borð bornir. Gangi stefna þeirra fram, um að byggt skuli álver í hverri vík og í hverjum firði og sem flestar ár virkjaðar og skemmdar, þá fer hún engan veginn saman við áherslur í ferðamálum. Þess vegna er fyllilega tímabært að við á Alþingi og ráðherra ferðamála gæti að þeim áherslum, að kröfum þessarar atvinnugreinar verði stillt upp gegn stóriðjuáformum. Menn sjá að hagsmunir ferðaþjónustunnar stangast mjög rækilega á við áform álráðherranna sem trúa bara á ál, að ál skuli það sem þjóðin skuli vinna að og orka hennar nýtt til. Ég ítreka að ég tel að þarna nálgist menn málin á sanngjarnari hátt gagnvart þessari atvinnugrein.

Hitt er annað mál að við viljum sjálfsagt alltaf að betur sé gert. Í fyrsta lagi að forgangur ferðamálanna verði miklu ákveðnari og miklu ríkari, að við eigum ekki að þurfa að slást um það norður í Skagafirði hvort nýta eigi Héraðsvötnin til uppbyggingar ferðaþjónustu og ímyndar Skagafjarðar sem slíkrar eða til að lúta álgræðgi einstakra annarra aðila sem ekkert annað sjá. Við eigum ekki að þurfa að kljást um þetta. Það á að vera svo sjálfsagt að ferðaþjónustan fái þar forgang.

Ef við víkjum aðeins að frumvarpinu, frumvarpi til laga um skipan ferðamála. Þar er lagt til að búa um greinina sérstaka stofnun og maður verður alltaf svolítið varkár þegar til stendur að búa til eina stofnunina enn, eins og við segjum. Er ekki til í samfélaginu nægar þær stofnanir nú þegar að hægt sé að fela þeim þessi verkefni? Svona stofnanir sem hér er lagt til að stofna, Ferðamálastofa — við höfum aðra sem áður hefur verið nefnd í umræðunni Fiskistofu og svo er landbúnaðarráðherra að stofna einhverja Landbúnaðarstofnun — þessar stofur eða stofnanir hafa ríka tilhneigingu til að lifa eigin lífi og búa sér til eigið líf. Það er því alveg eðlilegt að menn gjaldi varhuga við því sem t.d. hæstv. landbúnaðarráðherra er að spekúlera með Landbúnaðarstofnun. Og þegar slagsmál hefjast um hvar hún eigi að vera þá sjá menn aðalhaginn í henni í því að ná í útsvörin af starfsmönnunum. Það eru náttúrlega ekki fagleg markmið. Hið sama gæti líka komið upp varðandi Ferðamálastofu.

Ég fer strax að hugsa: Mikið væri gott að fá þessa Ferðamálastofu, því hún verður orðin 10–20 starfsmenn innan fimm ára, að Hólum í Skagafirði, á Blönduósi eða eitthvað slíkt. (GHall: Á Hólum.) Á Hólum t.d., eins og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson nefnir og ég tek heils hugar undir. Þessi umræða er svo sem eðlileg í kjölfarið og í tengslum við svona lagað. Þess vegna finnst mér að í lögum ætti að vera tillaga um hvar viðkomandi stofa eða stofnun skuli vera. Í kringum svona stofnun skapast gríðarleg þungamiðja. Við erum með miðstöð rannsókna og kennslu í ferðamálum á Hólum í Hjaltadal og stofnunin væri þess vegna velkomin þar, ef hún yrði stofnuð. En tilurð svona stofnana fær sitt eigið líf. Þess vegna þarf að velta fyrir sér hvort þetta sé nauðsynlegt eða ekki. Er ekki hægt að fela þeim stofnunum sem nú þegar eru fyrir hendi að taka að sér þessi verkefni? Ég held að við eigum að fara mjög vandlega í gegnum það og skoða þetta frumvarp út frá því hvort þessi stofnun sé nauðsynleg eða ekki og hver verkefni hennar eigi að vera.

Það er talað um að hún eigi að koma í staðinn fyrir Ferðamálaráð Íslands sem nú er. Stjórnsýsluleg staða Ferðamálaráðs er ekki mjög sterk eða skilgreind í núgildandi lögum. Það hefur ekkert framkvæmdarvald sem slíkt. Ég sé því ekki beint að hún komi í staðinn fyrir Ferðamálaráð enda á áfram að vera til einhvers konar ferðamálaráð. Þó svo þessi Ferðamálastofa yrði stofnuð yrði áfram til ferðamálaráð með óskilgreind stjórnsýsluleg verkefni. Að lítt athuguðu máli sýndist mér sem ferðamálaráð yrði með þessu algerlega óþarft.

Ef Ferðamálastofa eða slík stofnun er komin upp þá er engin ástæða til þess að vera með stjórnsýslulegt ferðamálaráð. (HBl: Það er einmitt það sem kvartað hefur verið yfir.) Ég veit það. Hv. þm. Halldór Blöndal bendir réttilega á það en eigum við þá að hafa bæði með Ferðamálastofu og ferðamálaráð? Það held ég að sé alger óþarfi. (HBl: Hvað viltu gera við ferðamálaráð?) Ég tek undir, herra forseti, að ég tel að hv. 2. þm. Norðaust. ætti einmitt að velta því fyrir sér hvað við höfum með Ferðamálastofu að gera. Ég held það í alvörunni. En ég set spurningarmerki við að stofnuð sé Ferðamálastofa eða stofnun með stjórnsýslulega stöðu sem ég geri ráð fyrir að eigi að vera A-hluta stofnun, fá stjórnsýslulega stöðu A-hluta stofnunar ef hæstv. ráðherra gæti svarað því, en mér sýnist að hún eigi að fá stjórnsýslulega stöðu A-hluta stofnunar innan ríkiskerfisins. Það er a.m.k. lagt upp þannig og þá sé ég ekki að ferðamálaráð hafi haft neitt hlutverk því að við verðum áfram með ráðuneytið og þessa fagstofnun.

Í 6. gr. segir varðandi ferðamálaráð:

„Ferðamálaráð gerir, árlega eða oftar, tillögu til ráðherra um markaðs- og kynningarmál ferðaþjónustunnar.“

Ég tel að hin mörgu félög ferðaþjónustunnar eigi að sjálfsögðu að álykta um áherslumál sín í ferðamálum, markaðsmálum og öðrum og síðan sé það ráðherrans að taka ákvörðun um hvað veitt er á fjárlögum til þeirra þátta. Ráðherra kallar eðlilega til þá aðila sem honum þykir nauðsynlegt að fá til sín til að ákveða skiptingu fjármuna. Ég er t.d. viss um að ekkert ferðamálaráð hefði samþykkt niðurskurð á markaðspeningum á fjárlögum þessa árs. (Gripið fram í.) Nei, það er nefnilega lóðið, herra forseti, að ferðamálaráð hefur ekkert fjárveitingavald og ekki heldur Ferðamálastofa. Það hefur ráðherrann og þá finnst mér að hann eigi ekki að stilla upp einhverri hirð í kringum sig hvað það varðar heldur kalli hann til þá aðila sem honum þykir nauðsynlegt að fá ráð hjá. Hin ýmsu samtök ferðaþjónustunnar álykta og senda greinargerðir, óskir, beiðnir og ábendingar til ráðherrans og annarra sem hafa áhrif á þau mál. En ég sé enga ástæðu til að búa til sérstaka hirð í kringum ráðherrann ofan á Ferðamálastofu ef hún verður stofnuð. Þetta er tvöfalt apparat og miklu nær fyrir ráðherrann að ráðherraábyrgðin sé skýr hvað varðar ákvarðanatöku, ráðstöfun og skiptingu fjár og ráðherrann hafi engin tök á að skýla sér á bak við umboðslaust ferðamálaráð, eins og þessi frumvarpsgrein varðandi ferðamálaráð gæti boðið upp á.

Maður veltir líka fyrir sér eftirlitshlutverki þessarar stofnunar eins og hér hefur áður komið fram. Gert er ráð fyrir að stofnunin hafi eftirlitshlutverk og innheimti eftirlitsgjöld fyrir ákveðin verkefni eins og kemur m.a. fram í 18. gr., með leyfi forseta:

„Ferðamálastofu er heimilt að taka gjöld af ferðaskrifstofum sem renna til Ferðamálastofu til að standa straum af eftirliti samkvæmt lögum þessum. Fjárhæð gjaldanna skal koma fram í reglum sem samgönguráðherra setur skv. 2. mgr. 17. gr. að fengnum tillögum Ferðamálastofu.“

Þarna er Ferðamálastofa orðin beggja megin borðs, hún gerir tillögur um gjöldin og hún innheimtir þau o.s.frv. Við erum komin þarna í svolítinn hring og ég efast um að það ætti að vera hlutverk Ferðamálastofu að vera innheimtuaðili fyrir eftirlitsgjöld. Ég dreg stórlega í efa að það sé stjórnsýslulega rétt. Nær væri að þau verkefni væru þá falin sýslumönnum en ég held að ferðaþjónustunni finnist ærin eftirlitsgjöld nú þegar á þessari atvinnugrein þó að ekki sé verið að bæta einum aðilanum við sem innheimtir eftirlitsgjöld.

Varðandi kaflann um tryggingarskyldu vegna alferða þá er talað um í 14. gr. að ferðaskrifstofur skuli hafa tryggingu. Mér er að vísu ekki alveg ljóst hver er munurinn á tryggingu og ábyrgð. Flestar atvinnugreinar eru með ábyrgðartryggingu, þ.e. þær eru tryggðar gegn þeirri ábyrgð sem á þær gæti fallið eins og ábyrgðartrygging á bílum og þess háttar. Mér hefði fundist nær að nota orðalagið ábyrgðartrygging. Það skýrði betur það sem átt væri við, að ferðaskrifstofan væri ábyrg fyrir því sem á hana gæti fallið með dómum eða öðru sem henni yrði gert skylt að greiða.

Í 14. gr. eru talin upp ýmis atriði hvernig þessi trygging skuli vera eða ábyrgðir, eins og ég vil kalla þær. Hún er í fyrsta lagi samkvæmt a-lið „Fé sem lagt er inn í viðurkenndan banka eða sparisjóð í nafni Ferðamálastofu“. Ég set aftur spurningarmerki við stöðu Ferðamálastofu þarna. Ég tel að Ferðamálastofa eigi að vera A-hluta stofnun, stjórnsýslulega sett sem A-hluta stofnun, og á erfitt með að sjá hana öðruvísi samkvæmt þeim verkefnum sem henni eru falin og ábyrgð sem hún ber gagnvart ráðherra, hún er beint á ábyrgð ráðherra eins og eðlilegt er. Því finnst mér að Ferðamálastofa eigi ekki að vera aðili sem tekur á móti ábyrgðargreiðslum eða tryggingum eða eins og sagt er í a-lið: „Fé sem lagt er inn í viðurkenndan banka eða sparisjóð í nafni Ferðamálastofu.“ Mér finnst þessi nálgun á hlutverki Ferðamálastofu ekki stjórnsýslulega rétt og þurfi að skoðast vandlega hvort þetta sé í rauninni heimilt.

Í b-lið er talað um ábyrgð viðskiptabanka eða sparisjóðs og það er hin hefðbundna leið sem oft hefur verið farin að viðskiptabankinn leggur fram ábyrgðartryggingu fyrir starfsemi viðkomandi fyrirtækis.

Síðan er c-liðurinn sem ég ætlaði líka að spyrja ráðherra hvað þýddi. Þar stendur, með leyfi forseta: „Önnur trygging sem Ferðamálastofa metur sambærilega.“ Þegar við lítum til þess að Ferðamálastofu er gert að vera stjórnsýslustofnun sem heyrir beint undir ráðherra þá er óeðlilegt að Ferðamálastofa meti gildi ábyrgðartrygginga, ég tala nú ekki um samkvæmt svo opnu orðalagi sem þarna er þar sem ekki er skylt að leggja fram ábyrgðaryfirlýsingu viðkomandi viðskiptabanka. Í heild sinni finnst mér alveg eðlilegt að í kaflanum um tryggingarskyldu vegna alferða sé skilgreind sú ábyrgð sem fyrirtæki og ferðaskrifstofur bera á þessum ferðum en ég get ekki séð að Ferðamálastofa sé stjórnsýslulega rétti aðilinn til að hafa milligöngu um að setja fram skilyrði fyrir þessar ábyrgðir að ég tali ekki um að geyma þær eins og kveðið er á um í a-lið, að leggja megi trygginguna inn í banka í nafni Ferðamálastofu. Ég get ekki séð stöðu Ferðamálastofu sem A-hluta stofnunar í því hlutverki. Mér finnst að fara þurfi yfir þessi atriði því að fátt er erfiðara og viðkvæmara eftir langa farvegi í gegnum dómskerfið hugsanlega en að meta eða kveða á um ábyrgð ferðamálafyrirtækis ef upp koma atvik sem krefjast þess.

Ég hef áður spurt um eftirlitið eins og kveðið er á um í 18. gr. Þar er talað um eftirlit og víðar er minnst á eftirlitshlutverk þessarar Ferðamálastofu og innheimtu gjalda hvað það varðar. Mér finnst alveg eðlilegt að slík stofa gæti verið með gæðaeftirlit en sé ekki innheimtuaðili gjalda sem slíku eftirliti geta fylgt. Þá er Ferðamálastofa orðin báðum megin við borðið og mér finnst það ekki rétt.

Það eru ýmsar fleiri áherslur sem maður veltir fyrir sér í ferðamálum, eins og t.d. almenningssamgöngum. Í umræðunni um ferðamál finnst mér staða, hlutverk og verkefni almenningssamgangna á landi vera allt of veik. Ég nefni sem dæmi þegar hægt var að halda uppi almenningssamgöngum við Þingvelli sem er einn af fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins. Mér finnst að skipuleggja verði og hugsa hlut almenningssamgangna miklu sterkar inn í þessa mynd ferðamálanna en gert er.

Frú forseti. Ég kemst ekki yfir fleiri atriði í frumvarpinu. Mér finnst gott að fá það til kynningar og þær hugmyndir sem þar eru sem hluti af þeim ferðamálapakka sem ráðherrann er að leggja fram en ég tel að þær þurfi miklu meiri skoðunar við áður en við afgreiðum málið á þessu þingi en það kemur væntanlega til meðferðar samgöngunefndar þar sem ég á sæti.