131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Skipan ferðamála.

735. mál
[18:10]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu má færa hinni hugsanlegu stofnun ýmis verkefni eins og það sem lýtur að þessari tryggingarskyldu eða að hafa það með höndum, en þá er verið að færa henni umfangsmikla peningalega stjórnsýslu. Þá er verið að hugsa þarna um býsna umfangsmikið apparat, ef svo má segja. Það þarf sérfræðinga og sérstakt starfslið til að annast slíka starfsemi og þá erum við að hugsa um stofnun sem getur vaxið býsna mikið á skömmum tíma ef þörf er á. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort þessi framkvæmdalegu verkefni væru ekki betur komin í höndum einhverra annarra aðila, innheimtuaðila ríkissjóðs eins og hér hefur áður verið nefnt, sýslumanna vítt og breitt um landið. En því fleiri slík umsýsluverkefni sem þessari stofnun gætu verið falin því meiri líkur eru til þess að hún þenjist og fari að lifa af sjálfu sér. Ég set spurningarmerki við það og tel nauðsynlegt að farið verði mjög vandlega í gegnum þessi mál. Til dæmis ef þessi stofnun á líka, eins og stendur í c-lið 14. gr., að meta hvaða tryggingar eru gildar, aðrar en skilgreindar bankaábyrgðir, þá er verið að færa henni flókin verkefni sem hún þarf þá að hafa mannafla og stöðu til að takast á við.