131. löggjafarþing — 112. fundur,  18. apr. 2005.

Skipan ferðamála.

735. mál
[18:17]

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um skipan ferðamála sem um hefur verið allhressileg umræða og kemur ekki á óvart því ferðamál eru þingmönnum augljóslega nokkuð hugleikin. Hafa menn nálgast frumvarpið með ólíkum hætti og inn í þetta blandast mál óskyld frumvarpinu, svo sem áhyggjur manna af fjárveitingum til markaðssetningar ferðaþjónustu, Fiskistofa og þar fram eftir götunum, en ekkert af því hefur beinlínis með frumvarpið að gera.

Ég tel, frú forseti, að frumvarpið fjalli aðeins um tvennt. Annars vegar að færa verkefni úr ráðuneyti í þar til gerða Ferðamálastofu og hins vegar að stuðla að gæðamálum í ferðaþjónustu. Menn hafa nefnt og haft áhyggjur af því að stofnun sem Ferðamálastofa kunni að tútna út og vitna gjarnan til Fiskistofu, en rétt er að vekja athygli á því að fram kemur í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins með frumvarpinu að kostnaður sé talinn rúmast innan ramma langtímaáætlunar samgönguráðuneytisins. Menn leggja því alla vega upp með að það verði ekki mikið bákn út úr þessu, en enginn veit hvað gerist í framtíðinni.

Fiskistofa hefur verið nefnd og má nefna fleiri stofur, svo sem Umferðarstofu, Orkustofnun, Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun landbúnaðarins svo einhverjar séu nefndar.

Hvað eiga þessar stofur eða stofnanir sameiginlegt? Þær þjóna utan ráðuneytis atvinnuvegum sem hafa skipað sér fastan sess í íslensku atvinnulífi, starfsemi sem hefur verið lengi, áratugum og jafnvel öldum saman. Þær hafa skipað sér ákveðinn sess og mótast af því innan stjórnsýslunnar og starfsemi þeirra fer ekki fram innan ráðuneyta.

Með frumvarpinu má segja að verið sé að reka endahnútinn á það og segja að ferðamál, ferðaþjónusta er orðin burðug atvinnugrein, svo burðug að hún kallar í kringum sig á sérstaka stjórnsýslu. Það er auðvitað til marks um að margt hefur gerst á síðustu áratugum í þeirri ungu atvinnugrein, svo mikið að hún er farin að skipa mikilvægan sess í efnahagslífi okkar og er líklega næstmikilvægasta atvinnugreinin í atvinnulífi okkar. Þar af leiðandi er ekki óeðlilegt að um þá mikilvægu atvinnugrein sé fjallað með sérstökum lögum um skipan ferðamála með útfærslu á Ferðamálastofu.

Það er rétt að vekja athygli á því, frú forseti, að það eru ekki mörg ár síðan að ferðaþjónusta okkar hérlendis byggðist á vorskipum og haustskipum þar sem erlendir ferðamenn voru mældir í tugum eða nokkrum hundruða á ári hverju. Til samanburðar höfum við í dag stöðugt vaxandi samgöngur sem skipta jafnvel tugum ferða með flugleiðum ýmiss konar á degi hverjum yfir háannatímann þar sem bæði íslenskir og erlendir ferðamenn eru á faraldsfæti.

Allar tölur sem við höfum séð og sjáum, ánægjulegar tölur um stöðugan vöxt og aukningu í þessari mikilvægu atvinnugrein segja okkur einfaldlega að við höfum sem þjóð verið að standa okkur vel í ferðaþjónustu því annars værum við ekki að sjá þessar ánægjulegu tölur.

Hins vegar er alveg ljóst og hefur komið fram, m.a. hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, að styrkja megi innviði hinnar ungu atvinnugreinar. Hún hefur vaxið afskaplega ört og landinn verið afskaplega hugmyndaríkur í að skapa sér tækifæri innan ferðaþjónustunnar, en þar hafa auðvitað komið fram ákveðnir vaxtarverkir og má segja að að sumu leyti séu innviðir hinnar mikilvægu atvinnugreinar nokkuð veikir. Ég lít svo á að meginmarkmið frumvarpsins sé einmitt að styrkja innviði ferðaþjónustunnar með því að setja gæðastaðla, með því að koma á lógói og að sjálfsögðu að fylgja því eftir með eftirliti að menn uppfylli þá gæðastaðla sem Ferðamálastofa og sérfræðingar á hennar vegum munu setja upp í samstarfi við atvinnugreinina.

Það tel ég, frú forseti, vera meginatriðið í þessu og falli mjög saman við þær áherslur sem Samtök ferðaþjónustunnar og aðilar í ferðabransanum hafa einmitt verið að leggja áherslu á. Það þarf ekki nema einn skussa til að koma óorði á ferðaþjónustuna, skaða hana, með því að bjóða falska þjónustu og lélega þjónustu. Með því að koma upp lógói þar sem ákveðin lágmarksgæði eru tryggð erum við að henda skussunum út úr greininni.

Ég lít einnig svo á að Ferðamálastofu sé ætlað að beita sér fyrir því að rannsóknir séu stundaðar, væntanlega í samstarfi við bæði skóla og aðra aðila, skoðuð séu þau tækifæri sem til staðar kunna að vera fyrir hina mikilvægu atvinnugrein. Undir það hljóta allir að taka.

Fram hefur komið að það kann að vera einhver ágreiningur um með hvaða hætti eigi að skipa markaðsmálunum þar sem Samtök ferðaþjónustunnar vilji frekar höndla það mál á eigin vegum og færa fyrir því ágæt rök. Það má líka segja að það séu mótrök gegn því að það sé ekki eðlilegt að aðilar úti í bæ sem hagsmunaaðilar séu með þeim hætti að sýsla með hið opinbera fé sem ríkisvaldið leggur til markaðsmála. Það má því segja að það sé nokkuð ásættanleg leið, fengin ágæt millilending án þess að vera nokkur brotlending, að fulltrúar Samtaka ferðaþjónustunnar og fulltrúar ferðamálasamtaka skuli eiga, ef ég man rétt, samtals fimm fulltrúa af átta í stjórn Ferðamálaráðs. Það er ágæt millilending á milli þess að greinin og hagsmunaaðilar þar höndli um þetta og síðan hinn opinberi aðili. Yfir það munum við að sjálfsögðu fara í hv. samgöngunefnd.

Ég þarf ekki að orðlengja um þetta. Ég ítreka að ég lít svo á að hér sé fyrst og fremst verið að stuðla að tvennu, þ.e. að taka verkefni úr ráðuneyti sem mér finnst eðlilegt og fela það Ferðamálastofu, en jafnframt, sem er meginatriðið, að tryggja gæði í þessari mikilvægu atvinnugrein.

Ég vil, frú forseti, að lokum nefna varðandi skilgreiningar að það eru ágætir kaflar í frumvarpinu þar sem orð eru skilgreind, ferðaskipuleggjandi og ferðaskrifstofa. Ég ætla ekki að fara frekar í það, vísa frekar í þingskjalið. En rétt er að benda á það sem fram hefur komið m.a. hjá Samtökum ferðaþjónustunnar að skilgreiningar Hagstofunnar á tekjum vegna ferðaþjónustunnar kunna að vera rangar. Hefur verið nefnt sem dæmi að bensínsölur, sem eru meira en bensínsölur í dag, þetta eru orðnar miklar sjoppur og selja ferðamönnum alls konar gúmmelaði, skapa ákveðnar tekjur sem ekki eru færðar beinlínis á ferðaþjónustu. Ég tel einmitt mjög heppilegt fyrir Ferðamálastofu að fjalla um verkefni af þessum toga, taka slíkt upp við Hagstofuna þannig að hinar raunverulegur tekjur af ferðaþjónustunni sjáist. Þær kunna með öðrum orðum að vera enn hærri en hinar opinberu tölur vegna þess sem má kalla eða eru kannski ónákvæmar skilgreiningar.

Ekki fleiri orð um það, frú forseti. Ég tel að frumvarpið staðfesti að ferðaþjónustan er orðin alvöru atvinnugrein hér og í henni eru mikil tækifæri og Ferðamálastofa kann að verða okkur ágætt vopn til þeirrar sóknar.