131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[13:31]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil lítillega nota þetta tækifæri og ræða um stöðu mála á þingi þegar óðum líður að fyrirhuguðum starfslokum. Eftir standa um 10 virkir dagar til að ljúka öllum verkefnum þessa þings ef starfsáætlun á að haldast, bæði til umræðna í þingsal og eins til nefndarstarfa.

Hæstv. forseti boðaði okkur breytingu á áður ákveðinni starfsáætlun úr forsetastóli á síðasta fundi og það er auðvitað vel að forseti reyni að halda þingmönnum upplýstum um tilhögun mála hér en hitt vekur athygli að það bólar ekki á neinu frá hæstv. ríkisstjórn hvað það varðar að hún komi á framfæri óskum sínum um afgreiðslu mála af forgangslista eða tilkynni hvaða mál megi að ósekju bíða frekari umfjöllunar á seinni þingum. Þvert á móti berast nú á borð okkar þingmanna mjög síðbúin frumvörp, jafnvel um umdeild mál, og ætlast er til þess að við þingmenn, og þar á meðal stjórnarandstæðingar, greiðum því atkvæði að slík máli fái að koma á dagskrá með afbrigðilegum hætti. Ég held að menn hljóti að sjá réttmæti þess að við förum fram á það að einhverjar upplýsingar verði nú veittar um það hvort hæstv. ríkisstjórn hyggst leita eftir einhverju samstarfi um tilhögun mála undir þinglokin, sérstaklega þá hvað varðar þau mál sem hæstv. ríkisstjórn telur að hún þurfi að fá afgreidd og hvaða mál ekki. Maður verður að ætla að ríkisstjórnin hafi einhverja meðvitund í þeim efnum sjálf. Ef ekki, þá er ekki seinna vænna að hún fari að hugsa sinn gang.

Þessi athugasemd mín, virðulegur forseti, snýr aðallega að því að ég óska eindregið eftir því að við þingmenn förum að fá skýrari línur í það hvers megi vænta um framhaldið og þinglokin.