131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[13:36]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það vekur athygli mína að hæstv. forsætisráðherra er í salnum en hefur ekkert til málanna að leggja. Þaðan er engin skilaboð að fá um það hvað hæstv. ríkisstjórn hyggst fyrir í þessum efnum. Nú mátti hæstv. forsætisráðherra væntanlega glöggt skilja það af máli okkar sem hér töluðum fyrir hönd stjórnarandstöðunnar að við vorum ekki síst að inna eftir því hvort hæstv. ríkisstjórn hefði einhver áform uppi, mundi sýna einhverja viðleitni til þess að leita eftir samkomulagi hér og samstarfi um þinglokin. En hæstv. forsætisráðherra hefur greinilega ekkert inn í þau orðaskipti að leggja.

Varðandi þingmál sem hér eru að koma fram, fjarskiptatillögu og síðan ákaflega síðbúið og sennilega lítt undirbúið frumvarp frá hæstv. landbúnaðarráðherra, er mjög bagalegt að slík mál séu að koma hingað loksins þegar langt er komið fram yfir þann frest sem liggur fyrir í lögum og öllum á að vera kunnugur, að þingmál, þar með talin stjórnarfrumvörp, eiga helst að koma fram fyrir 1. apríl. Þetta er þeim mun hlálegra í tilviki hæstv. landbúnaðarráðherra sem það varð tilefni umræðna í vetur að ekkert, bókstaflega ekkert, kæmi frá hæstv. ráðherra. Landbúnaðarnefnd var verklaus og felldi niður fundi lengst af vetrar. Nú loksins koma afurðirnar af búinu og þá eru þær eins og raun ber vitni. Ég hef allan fyrirvara þegar málatilbúnaðurinn er með þessum hætti.

Það er að sjálfsögðu, herra forseti, eins og fram kom hjá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur allt í góðu lagi með að greiða fyrir því að mál komi fram og séu kynnt eða þau gangi til nefndar en það gegnir öðru máli ef á bak við liggur ásetningur um að knýja síðan undir lok þingsins fjölda umdeildra og illa undirbúinna mála í gegn, ef þá á að setja í gírinn, setja færibandið í gang. Það er meðal annars gagnvart slíku sem við viljum verja okkur hér, stjórnarandstæðingar.