131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[13:40]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum að sjálfsögðu beint óskum okkar til forseta þingsins en jafnframt höfum við krafið ríkisstjórnina um upplýsingar um forgangsröð hennar. Hæstv. forsætisráðherra kemur í pontu og talar eins og að til stefnu séu margir mánuðir. Til stefnu eru 10 eða 11 þingdagar og fyrir þinginu liggja mörg mál sem eru mjög viðamikil. Ég nefni t.d. frumvarp um Ríkisútvarpið sem mundi umturna þeirri stofnun og svipta starfsmenn hennar mikilvægum réttindum, ef að lögum yrði. Ég nefni samkeppnislög sem gera ráð fyrir grundvallarbreytingum á því sviði. Ég nefni skattlagningu orkufyrirtækja, annað stórmál sem hér liggur fyrir þinginu, og vakin hefur verið athygli á því að ríkisstjórnin er í dag að biðja um afbrigði fyrir því að koma fleiri stórmálum inn í þingið. Hvers konar vinnubrögð er verið að kalla á? Það er eðlilegt að þeirri spurningu sé beint, ekki aðeins til stjórnar þingsins, heldur til ríkisstjórnarinnar um hver forgangsröð hennar sé. Hvaða mál eru það sem hún leggur áherslu á að fá til umræðu í þinginu, og hver ekki?

Það er rétt sem fram kemur hjá hæstv. forseta þingsins, hann hefur óskað eftir umræðum um þessi mál, en það er mjög hljótt um forgangsröð ríkisstjórnarinnar. Það er eðlilegt að spurt sé um hana úr ræðustól.