131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Höfundalög.

702. mál
[14:04]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að málið er stórt og mikið að vöxtum og tæknilegt mál líka. Við förum í meginatriðum sömu leið og aðrar Norðurlandaþjóðir hafa farið, þ.e. að undirstrika það sem fram kemur m.a. í Evróputilskipuninni, að undirstrika þau réttindi sem rétthafarnir eiga.

Ég fékk líka netpóstinn sem hv. þingmaður vitnaði í og að sjálfsögðu verða neytendur að undirstrika að þeir þurfa að hafa aðgang að ákveðnum réttindum og reyna að verja þau. En ef fara á þá leið sem fram kemur m.a. í netverjapóstinum verða aukin réttindi fyrir neytendur, en að sjálfsögðu á kostnað rétthafanna og má velta því fyrir sér hversu mikil sköpunin verður ef rétthafarnir hafa ekki tryggðan höfundarrétt á sköpunarverkum sínum.

Ég fór held ég alveg ágætlega yfir það í framsöguræðu minni að mikil verðmæti verða til í kjölfar höfundaverkanna og hugverkanna sem skapast hjá listamönnum og öðrum þeim sem eiga höfundarrétt. Ég held að þarna séu hagsmunir sem vegast á, en engu að síður tel ég rétt að undirstrika höfundarrétt listamanna og þeirra sem hafa skapað hugverkin, því ef það á að gefa út algjört frelsi á netinu þannig að höfundarréttur þeirra verði ekki verndaður á þann hátt sem kveðið er á um í tilskipuninni og í frumvarpinu verður lítið um sköpun í framtíðinni.