131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Höfundalög.

702. mál
[14:17]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er alveg á mörkunum að ég treysti mér til að ræða við hinn, ekki aðeins vörpulega, heldur líka fluggáfaða og hnífbeitta hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, um svo hálögfræðileg málefni sem hér eiga í hlut. Ég sagði í ræðu minni að höfundarrétturinn væri ákaflega mikilsvert mál. Hann skapar mikilvægum hópi manna nauðsynleg réttindi. Hér er ekki um það að ræða að skerða höfundarréttinn frá því sem nú er, þetta frumvarp fjallar fyrst og fremst um það hvernig eigi að verja hann í hinni stafrænu tækni sem er nú að umlykja okkur og gerir það enn frekar í framtíðinni. Það eina sem ég benti á var að til eru sjónarmið, sem hér hafa komið fram og mátti greina í ræðu hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar, um það að stundum beri að fara varlega í þessu efni. Jafnvel hinn göfuga höfundarrétt er hægt að misnota og fara svo langt með hann að það geti bitnað á öðrum sem ekki stóð til að hegna eða refsa.

Það er í því ljósi sem menntamálanefnd, ég endurtek, menntamálanefnd, væntanlega skoðar þetta frumvarp og kallar til sín þá aðila sem henni sýnist.