131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Höfundalög.

702. mál
[14:18]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að byrja á því að þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir hlý orð í minn garð.

Við sem höfum fylgst með þessum höfundarréttarmálum og þjóðmálaumræðunni um höfundarrétt og frelsi netverja til að senda á milli sín og varpa fram á netinu og afrita gögn sem vernduð eru af höfundarrétti vitum að þeir aðilar hafa talað fyrir því að draga úr höfundarréttarvernd og leyfa í rauninni nánast, ef ekki alveg, frjálsan flutning á hugverkum á netinu. Þar á ég ekki bara við tónlist eða slíka listsköpun, heldur snýr þetta líka að myndverkum, hugbúnaði og fleiru sem mér hefur skilist að þessir aðilar vilji afnema vernd á. Hv. þingmaður mælist til þess að hlustað verði á þau sjónarmið. Mér finnst alveg rétt að gera það en við verðum að hafa það í huga að höfundarrétturinn er mikilvægur eins og hv. þingmaður benti á. Það má jafna honum við eignarrétt þeirra sem að þessari sköpun standa.

Þess vegna spurði ég hv. þingmann að því, fyrst hann vill hlusta á þessi sjónarmið og fá fram rök þessara aðila, hvort hann sé þeirrar skoðunar að það eigi að slaka á höfundaverndinni sem núgildandi lög kveða á um. Það er ekki síst á tæknisviðinu þar sem taka verður þessi atriði til gagngerrar skoðunar og kanna verulega. Það er þarna sem hætturnar felast fyrir höfundarréttarhafa.