131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Höfundalög.

702. mál
[14:23]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Já, mál það sem liggur á borðum okkar er nokkuð mikið að vöxtum enda fjallar það um afar flókin mál, höfundarrétt og breytingu á höfundalögum. Orðaskipti þeirra þingmanna sem nú þegar hafa tjáð sig um málið gefa auðvitað til kynna hvers er að vænta í menntamálanefnd. Þar komum við til með að þurfa að vega og meta ólíka hagsmuni og þá ekki hvað síst hagsmuni höfundarréttarhafa annars vegar og hagsmuni neytenda hins vegar.

Sjálf er ég þeirrar skoðunar eftir mjög lauslega yfirferð á frumvarpinu að ákvæði þess séu af hinu góða og það segir auðvitað sína sögu hversu langan tíma hefur tekið í Evrópu að koma þessum tilskipunum sem liggja hér að baki áleiðis og í höfn.

Tilskipunin sem verið er að innleiða með þessu frumvarpi er samþykkt í maí 2001. Það kemur fram í greinargerð þessa frumvarps að það hafi tekið nokkuð langan tíma fyrir menn að sættast á þær niðurstöður sem hún hefur að geyma. Sameiginlega EES-nefndin samþykkti tilskipunina með breytingu á ákveðnum viðauka samningsins á fundi sínum 9. júlí og þar með var tilskipunin hluti af EES-samningnum. Þann 10. júlí 2004 er hún þá orðin hluti af EES-samningnum.

Það kemur líka fram í greinargerðinni að Danir innleiddu þá hluti sem hér um ræðir í sín lög fyrir árslok 2002.

Ekki ætla ég að álasa íslenskum stjórnvöldum fyrir það að hér skuli vera nokkur seinagangur á. Ég skil það mætavel því að ég veit að hér er um yfirgripsmikið mál að ræða. Það er ekki óeðlilegt þó að beðið sé eftir niðurstöðum í Evrópu og fyrirmyndum frá öðrum löndum. Ég held að það sé mjög vel að hér hafi verið litið til Dana í þessum efnum. Höfundarréttarlöggjöf okkar hefur kannski fyrst og síðast tekið mið af dönsku löggjöfinni. Hér virðist mér sem litið hafi verið til Danmerkur einu sinni sem oftar.

Það er alveg ljóst að sú samræming sem hér er verið að reyna að koma á er að mörgu leyti takmarkandi. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að lagðar séu „takmarkanir á eftirgerð, dreifingu og notkun hugverka án samþykkis höfunda og annarra rétthafa“. Það er líka lagt til að það verði „að hafa undir höndum, þróa og eiga viðskipti með búnað sem hefur þann tilgang einan að komast hjá tæknilegri afritunarvörn“. Sömuleiðis er lagt til að „lögaðilum verði ekki heimilt að gera eintök af birtu verki til einkanota, heldur aðeins einstaklingum“. Að lokum er lagt til að „úrskurðarnefnd um fjárhæðir þóknana fái að auki það hlutverk að fjalla um tilvik þar sem aðilar sem nota kennsluefni geta ekki nýtt rétt sinn til efnisins án þess að afritunarvörn sé gerð óvirk“.

Fjármálaráðuneytið sem hefur gefið umsögn með þessu frumvarpi segir að að öðru óbreyttu komi þetta frumvarp til með að hafa í för með sér „aukin útgjöld vegna þóknana til höfunda og annarra rétthafa efnis“. Það er alveg augljóst að þetta mál kemur til með að hafa ákveðnar afleiðingar í för með sér sem gera það að verkum að rétthafar og þá kannski ekki síst flytjendur efnis og höfundar ýmiss tölvuefnis koma til með að fá aukinn skerf af höfundalaunum sem hefur hingað til verið erfitt fyrir þetta fólk að sækja. Ég sé ekki annað en að hér sé staðinn vörður um réttindi þeirra sem hafa staðið að baki listflutningi og menningarstarfsemi og þeirra sem hafa lagt á sig ómælda vinnu við að semja efni, hvort það er þá í tónlist eða efni sem ætlað er fyrir tölvur.

Auðvitað er þetta allt saman mjög flókið í hinum nýja heimi upplýsingasamfélagsins og margmiðlunarinnar. Vextir þessa frumvarps og tilskipunarinnar gefa það skýrt til kynna.

Eitt langar mig til að nefna við þessa 1. umr. sem kemur til með að verða talsvert verkefni fyrir menntamálanefnd að setja sig inn í, og það er hugtakanotkun. Það kemur fram í fylgiskjali með þessu frumvarpi þar sem fjallað er um helstu ákvæði tilskipunarinnar og samanburð þeirra við gildandi lög að menn hafa lent í erfiðleikum með að samræma tungumálið eða finna réttu leiðirnar að hugtakanotkuninni. Ég er þeirrar skoðunar að þegar ný löggjöf er sett og ný hugtök innleidd sé það mikið vandaverk. Sá vandi hvílir auðvitað á okkur sem í þessum sal störfum að vanda virkilega vel til verka þannig að ég legg til að við leitum umsagna í þessum efnum til fagfólks í íslensku og fáum umtalsverðar upplýsingar hjá þeim sem best til þekkja í þeim efnum um það hvort í frumvarpinu eru lagðar til einföldustu lausnirnar eða viðunandi lausnir í þeim efnum.

Það er alveg ljóst að menntamálanefnd bíður talsvert verkefni í þessum efnum, sama hvernig á það er litið.

Að lokum vil ég nefna það hér að mér sýnist eftir frekar grunna yfirferð, hæstv. forseti, á þessu máli skynsamlegt að setja inn í frumvarpið það bráðabirgðaákvæði sem hér er lagt til. Það lýtur að 50. gr. b og c í höfundalögunum, með öðrum orðum 12. gr. frumvarpsins, en það eru greinar sem fjalla m.a. um tæknilegar ráðstafanir. Þetta eru greinar sem lúta fyrst og síðast að hinni nýju tækni. Það er eðlilegt að sett sé bráðabirgðaákvæði í frumvarpið, tel ég, sem gerir þeim sem starfa eftir þeim tilteknu greinum kleift að aðlaga sig og okkur hér í þessum sal að skoða þá aftur innan tveggja ára hvernig sú löggjöf sem hér er verið að leggja til að sett verði komi til með að arta sig í samfélaginu.

Hæstv. ráðherra talaði um vægi listflutnings og menningarstarfsemi í þjóðarframleiðslu og hlutdeild menningar og listar í allri okkar efnahagsköku. Það er auðvitað einn verulega stór þáttur í þessu máli sem ég geri ráð fyrir að hv. menntamálanefnd komi til með að skoða. Ég treysti því að við fáum nefndarálit frá menntamálanefnd sem kemur til með að leggja áherslu á þann hlut. Hér er jú þegar öllu er á botninn hvolft verið að efla rétt listflytjenda, efla rétt þeirra sem framleiða efni fyrir t.d. tölvudiska eða hina nýju margmiðlunartækni. Ég held að hér sé til staðar mál sem þarf að skoða verulega vel, fá umsagnir mjög víða að því að svo margir koma að þessum málum. Ég sé ekki annað en að hv. menntamálanefnd hafi mikið verk að vinna. Hún er auðvitað fullfær um það og kemur til með að fá gesti og gott fólk til liðs við sig í þessu flókna og viðamikla máli.