131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Höfundalög.

702. mál
[14:31]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Örstutt. Ég þakka hv. þingmönnum öllum fyrir þessa ágætu umræðu og þann áhuga og skilning sem þeir sýna þessum mikilvægu réttindum sem við erum að fjalla um í þessu frumvarpi, þ.e. hugverkaréttindum og höfundarrétti.

Það er rétt og af því eimir eftir í umræðunni að auðvitað togast á ákveðnir hagsmunir. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom ágætlega inn á það að það eru að togast á ákveðnir hagsmunir höfundarréttarhafa annars vegar og hins vegar neytenda. Ég veit og geri mér grein fyrir því að þetta mun koma upp meðal gesta hv. menntamálanefndar sem að sjálfsögðu mun fara gaumgæfilega yfir allar þær athugasemdir sem henni berast vegna þessa mikilvæga máls.

Ég held og ætla ekki að gera það öðruvísi en á þann hátt að ég vonast til þess að hv. menntamálanefnd klári engu að síður þetta mál með tilliti til þeirra mikilvægu hagsmuna sem búa þarna að baki. Ég lagði fram þetta frumvarp núna með þá von í brjósti, án þess að segja þinginu fyrir verkum, að þingið gæti klárað þetta. Það er röskt og gott fólk innan hv. menntamálanefndar sem ég veit að vinnur vel eins og kom fram áðan. Ellegar hefðum við þurft að bíða með þetta til haustsins og jafnvel fram á síðari hluta næsta þings því eftir er umfangsmikil vinna sem lýtur að heildarendurskoðuninni á höfundarréttarlögunum. Ég taldi því í ljósi þeirra hagsmuna sem felast í þessu frumvarpi og tilheyra og falla undir tilskipunina rétt að koma með málið eins og það lítur út núna fyrir hinu háa Alþingi.

Að öðru leyti hef ég ekki mikið meira um þetta mál að segja. Benda má á að menn telja að hagsmunir neytenda hafi ekki skinið nægilega skært í þessu frumvarpi. Þó vil ég benda á eitt atriði þar sem verið er að undirstrika þann rétt sem neytendur hafa og tengist ákveðnu máli sem kom upp í Noregi varðandi DVD-Jón eins og hann er víst kallaður.

Ég vek athygli þingheims á því að lögvernd tæknilegra ráðstafana er tengjast þessum áþreifanlegu eintökum nær eingöngu til þess að varna óheimilli eftirgerð þeirra. Hafi eigandi hljóð- eða myndrits, eins og þessi ágæti DVD-Jón í Noregi, eignast það með lögmætum hætti en tæknilegar ráðstafanir varni honum að nýta það þá má hann brjóta upp þessa vörn í þeim tilgangi að nota það í sinni eigin tölvu. Þarna er verið að undirstrika þau réttindi sem neytendur hafa. Ég held að allir hafi fyllsta skilning á þessu.

Hv. menntamálanefnd mun fara vel yfir þetta og ég bíð og vona þess að hún klári það sem fyrst.