131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Breyting á II. viðauka við EES-samninginn.

604. mál
[14:37]

Frsm. utanrmn. (Sólveig Pétursdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar á þskj. 1131. Þetta er mál 604, tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 99/2004, um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn, þ.e. tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 99/2004 frá 9. júlí 2004, um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/98/EB frá 27. janúar 2003 um setningu gæða- og öryggisstaðla fyrir söfnun, prófun, vinnslu, geymslu og dreifingu blóðs og blóðhluta úr mönnum og um breytingu á tilskipun 2001/83/EB.

Nefndin fékk til fundar við sig þau Ernu S. Hallgrímsdóttur frá utanríkisráðuneyti og Ingolf J. Petersen, Hólmfríði Einarsdóttur og Einar Magnússon frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.

Með innleiðingu tilskipunarinnar í íslensk lög verður markaður rammi um blóðbankastarfsemi. Gæði og öryggi blóðs og blóðhluta án tillits til ætlaðrar notkunar verður tryggt enn betur og frekar komið í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma við blóðgjöf. Innleiðing hennar krefst lagabreytingar hér á landi. Heilbrigðisráðherra hefur þegar lagt fram lagafrumvarp til að innleiða efni hennar, þ.e. þskj. 981, 649. mál og er það nú til meðferðar í heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis.

Ég vek athygli á því, hæstv. forseti, að í nefndaráliti hefur misritast númer lagafrumvarps heilbrigðisráðherra sem ég gat um. Það er mál 649 en ekki 694.

Utanríkismálanefnd leggur til að tillagan verði samþykkt.

Undir nefndarálit þetta skrifa hv. þingmenn Sólveig Pétursdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Drífa Hjartardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Sigurður Kári Kristjánsson, Jónína Bjartmarz og Þórunn Sveinbjarnardóttir.