131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[14:57]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra mælti hér fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um fjarskipti. Það eru nokkur atriði sem ég vildi inna hann frekar eftir strax í upphafi.

Í fyrsta lagi þar sem verið er að tala um jöfnunargreiðslur og kröfu vegna alþjónustu þá langar mig til að spyrja hverjar hafa greiðslur verið síðastliðin ár vegna svokallaðra jöfnunargjalda skv. 22. gr. og hver hafa verið framlög til fyrirtækja til að standa undir alþjónustukvöðum? Ég sé í greininni þar sem fjallað er um þetta að þar er talað um að nauðsynlegt sé að kveða nánar á um þessi mál. Í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins er sagt, með leyfi forseta:

„Í úrskurði yfirskattanefndar nr. 137/2004, um beitingu álags vegna vanefnda á greiðslu jöfnunargjalds skv. 5. mgr. 22. gr. fjarskiptalaga, er ekki talin nægjanleg heimild í lögunum til að krefja greiðanda um álag vegna vanefnda á greiðslu gjaldsins.“

Það væri fróðlegt að vita hvaða gjöld hér er um að ræða. Hvað hefur verið gerð krafa um og hvað hefur innheimst og hvað hefur runnið til þess að standa undir þessum alþjónustukvöðum?

Þá er hér líka grein sem lýtur að hugtakabreytingu þar sem verið er að breyta hugtakinu „umtalsverð markaðshlutdeild“ í „umtalsverðan markaðsstyrk“ fyrirtækja á fjarskiptamarkaði. Ég hefði gjarnan viljað heyra hæstv. ráðherra skýra nánar hvað þarna er átt við og hvernig það samræmist öðrum slíkum hugtökum á samkeppnismarkaði og í samkeppniseftirliti.