131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[15:30]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega ræðu. Hún spurðist fyrir um hvort tilskipunin gerði þessar kröfur. Það er ekki svo að við getum að þessu sinni skýlt okkur á bak við það að tilskipanir geri þessar kröfur. Hins vegar veitir tilskipunin heimild til að setja slíkar reglur. Þessar reglur um hlerun, geymslu gagna o.s.frv., eins og ég hef komið að bæði í ræðu minni og í andsvörum, eru settar inn að ósk ríkislögreglustjóra. Við teljum að þær séu innan þeirra heimildamarka sem tilskipunin setur okkur.

Varðandi persónuverndina þá er það þannig að það er mismunandi hvernig frumvörp eru unnin. Ég lít svo á að það sé ekki skilyrðislaus krafa að ráðherra spyrji Persónuvernd um leyfi áður en hann leggur frumvörp fram í ríkisstjórn sem síðan fara til afgreiðslu í þinginu. Í ráðuneytinu var fundað með fulltrúum Persónuverndar og ég lít svo á að Persónuvernd hafi átt eðlilegan aðgang að samgöngunefndinni. Ég tel eðlilegt að samgöngunefnd vísi svona málum til umsagnar Persónuverndar þannig að ég tel að ráðherra sé á engan hátt skyldugur til að kalla eftir sérstöku leyfi frá Persónuvernd varðandi það sem hann leggur fram fyrir þingið.

Það kom mér hins vegar mjög á óvart að Persónuvernd, vegna óánægju með ákvæði í frumvarpi, leiti til fjölmiðla fremur en að leita upplýsinga hjá ráðuneyti um tiltekin atriði frumvarpinu sem hér eru til umfjöllunar. Ég tel að það sé ekki eðlilegur framgangsmáti.