131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[15:32]

Bryndís Hlöðversdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að auðvitað er það ekki skilyrðislaus krafa og enginn sem gerir þá skilyrðislausu kröfu til ráðherra að hann leiti umsagnar Persónuverndar, jafnvel þótt um sé að ræða mál sem fjalla um persónuvernd. En, virðulegi forseti, það er hins vegar mjög skynsamlegt að gera það. Það er mjög skynsamlegt að leita til þess aðila þegar ráðuneytin undirbúa frumvörp um jafnviðkvæman málaflokk sem við ræðum um hér, að leitað sé til þeirra opinberu aðila sem hefur verið falið það hlutverk að gæta þess að farið sé eftir lögum um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, í þessu tilviki Persónuverndar. Ég held að það hefði verið skynsamlegt og einnig auðveldað mjög vinnuna á hinu háa Alþingi.

Auðvitað mun samgöngunefnd senda málið til umsagnar Persónuverndar, það er nokkuð ljóst tel ég. En ég held eigi að síður að skynsamlegt hefði verið fyrir ráðuneytið að gera það líka, sérstaklega í máli sem þessu, í viðkvæmu máli sem fjallar m.a. um hleranir. Það hefur sýnt sig, eins og ég nefndi áðan, m.a. í máli sem kom frá hæstv. dómsmálaráðherra fyrir nokkru síðan, að ýmislegt getur komið í ljós þegar Persónuvernd fær loksins að koma að málinu og gefa um það umsögn, sem hefði í raun og veru mátt gera í upphafi. Ég tel að það hefðu verið vandaðri vinnubrögð, að gera það í upphafi. Ég tel eðlilegt að vinna málið þannig en ég skil hæstv. ráðherra þannig að ekki hafi verið leitað formlegrar umsagnar heldur hafi málið verið kynnt munnlega eða eitthvað slíkt. Ég held að við ættum að gæta þess við samningu frumvarpa að farið sé ofan í þætti eins og þetta strax í upphafi. Ég held að það mundi auðvelda okkur öllum vinnuna í framhaldinu og væri þinginu og hæstv. ráðherra til sóma.