131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[16:00]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar fjármál stjórnmálaflokkanna vona ég að þingmenn almennt geri sér grein fyrir að þetta er ekkert grín. Þetta er háalvarlegt mál. Það er einmitt einn af hornsteinum lýðræðisins að menn viti hverjir greiða í kosningasjóði. Ég vona að sá dagur komi á hinu háa Alþingi að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins geri sér grein fyrir þessu og einnig að þetta er undantekning í hinum vestræna heimi. Almennt er þetta ekki viðhaft.

Ég var ekki að mæla neinum glæpamönnum bót með því sem ég kom inn á. Ég sagði að rétt væri ef einhver lægi undir grun um fíkniefnasölu eða þess háttar að þá yrði hann rannsakaður en ekki að þjóðin öll lægi undir rannsókn. Málið sem við ræðum í dag snýst um það að verið er að safna gögnum um alla þjóðina vegna þess að það eru einhverjir misindismenn í samfélaginu. Ég tel að það skipti máli að við einbeitum okkur að því að safna gögnum um þá sem liggja undir grun en ekki um alla þjóðina. Það var kjarni máls míns.