131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[16:02]

Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Í þessu kosningamáli um sjóði pólitískra flokka er það bara skrípaleikur þegar menn tala um að ekki eigi að gefa upp upphæðir undir 499 þús. kr. en upphæðir sem eru 500 þús. kr. eða 500 þúsund og ein króna skuli gefa upp. Við sjáum hvers konar skrípaleikur þetta er.

Í því máli sem hér er verið að fjalla um, frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, þá er alveg ljóst að starfsskilyrði stóru símafyrirtækjanna í dag eru háð því að þar sé til búnaður þar sem hægt er að hlera símtöl. Hins vegar hefur eitt fyrirtæki neitað þessu og telur að ekki sé nógu skýrt kveðið á um það í lögum til að verða við því ef lögregla óskar þess. En hér er bara verið að árétta hluti sem áður hefur verið gengið frá.

Ég verð að segja að mér fannst kveða við allt annan tón hjá hv. þingmanni áðan þegar hann kom upp í ræðustól og svaraði mér í andsvari vegna þess að ég held að hann geri sér fulla grein fyrir því og mér fannst það liggja í orðum hans að hann áttaði sig á því að það er nú þannig í þjóðfélaginu að til að geta verndað borgarann verðum við að eiga aðgang að búnaði til að hlusta símtöl og einnig að skrá verður þau kort sem keypt eru í farsímana og þó að þar séu einhver undanhlaup ef menn geta keypt kort erlendis frá verður bara að bregðast við því með einhverjum hætti. En ég tel að með því sé ekki verið að koma á lögregluríki þar sem menn geta ekki stigið spor öðruvísi en að það sé grandskoðað, að það séu algerir öfgar eins og hv. þingmaður hefur lagt út af því.