131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[16:06]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er um margt fróðleg umræða sem hér hefur farið fram. Komið hefur verið töluvert inn á það sem mestu máli skiptir, sem eru fráleit ákvæði að mínu mati að mörgu leyti að því er virðist við fyrstu skoðun, og það eru ákvæðin sem lúta að varðveislu gagna um fjarskiptaumferð og þar er klárlega að því er virðist vegið að friðhelgi einkalífsins. Um er að ræða ákaflega viðamiklar persónunjósnir þar sem virðist gengið miklu lengra en réttlætanlegt er út frá sjónarmiðum persónuverndar og friðhelgi einkalífsins. Þarna verður að stíga miklu varlegar til jarðar eins og fram hefur komið í máli ýmissa þingmanna í dag. Hér virðist gengið allt of langt bæði í hlerun og gagnaöflun. Um er að ræða svo yfirgripsmikið eftirlit með öllum og sérstaklega í ljósi þess sem blasir við, og við munum ræða síðar í dag í fjarskiptaáætluninni, sem er samruninn sem á sér stað einmitt þessi missirin í miðlun og fjarskiptum þannig að þetta rennur allt meira og minna saman. Fari stjórnvöld almennt að skrá og skrásetja alla notkun á fjölmiðlum og fjarskiptum ár aftur í tímann hjá öllum er um að ræða fráleitar persónunjósnir að mínu mati sem koma aldrei til greina út frá sjónarmiðum persónuverndar og friðhelgi einkalífsins. Þarna verður að ganga miklu skemur, það verður að sjálfsögðu að vera grunur um refsiverða háttsemi til að réttlætanlegt sé að svo langt verði gengið.

Það frumvarp sem hér um ræðir felur í sér ákaflega róttækar breytingar um eftirlit með persónum, um persónunjósnir og hleranir, og hljótum við að verða að ræða það vandlega og breyta því mjög og milda mjög. Það er allt annað mál að veita lögreglu upplýsingar um tiltekin fjarskipti, miðlun o.s.frv. en þarna er gengið allt of langt, þarna er farið of langt yfir mörkin og þó svo að menn séu að sjálfsögðu að setja lög með jákvæð markmið sem eru þau að koma í veg fyrir og vinna gegn alls konar alvarlegum glæpum, eins og sölu fíkniefna, dreifingu klámefnis og fleiri slíkra hluta, verður að finna þarna eitthvert einstigi á milli rannsóknarhagsmuna og hagsmuna persónuverndar. Samkvæmt þessum frumvarpsdrögum eru þeir síðari að mínu mati fyrir borð bornir. Þarna eru persónuhagsmunir fyrir borð bornir á kostnað rannsóknarhagsmuna þótt að sjálfsögðu sé mikilvægt að ganga þannig fram að auðveldara sé fyrir lögreglu að nálgast þá glæpamenn sem verið er að elta uppi. En það er einfaldlega of langt gengið að safna gögnum um fjölmiðlaneyslu og fjarskipti allra eitt ár aftur í tímann. Slíkt kemur ekki til greina að mínu mati. Þarna verður að finna mörk og stíga miklu varlegar til jarðar en hér um ræðir, enda kannski ekki undarlegt þegar óskir ríkislögreglustjóra hafa verið svo ráðandi við vinnslu frumvarpsins en álits Persónuverndar t.d. ekki leitað í neinni alvöru við vinnslu málsins. Eins og fram kom í umræðunni fyrr í dag hefur Persónuvernd skrifað samgönguráðuneytinu bréf og óskað eftir því að fá að koma miklu meira að þessu máli.

Margt annað er hér býsna róttækt fyrir utan aðgengi yfirvalda að gögnum og skrásetningu gagnanotkunar aftur í tímann. Önnur nýmæli eru, eins og hér hefur einnig verið rætt um, notkun símanúmera og kaup á frelsisnúmerum þar sem framvísa þarf skilríkjum. Því er öllu gerbreytt þannig að við kaup símakorts skal framvísa skilríkjum þannig að upplýsingar liggi fyrir um hver sé skráður eigandi allra símanúmera og/eða notandi vistfangs IP-tölu. Þetta hljótum við að skoða í nefndinni. Það eru vissulega sterk rök fyrir því að réttlætanlegt sé að ganga svo langt að leggja það til að ekki sé hægt að nota svokölluð frelsiskort með óskráðum númerum sem auðvelda bæði alls konar vitfirringum leið til að leggja fólk í einelti og ráðast gegn fólki, vera með dónaskap og einelti í garð fólks og alls konar slíkan óhugnað. Nafnleysið auðveldar slíku fólki þá ónáttúru með ýmsum hætti þannig að við hljótum að skoða hvort það er réttlætanlegt en þá um leið kemur það upp að auðvitað geta bæði glæpamennirnir og pervertarnir keypt slík númer erlendis en það er vissulega um lengri veg að fara og erfiðara að stunda þessa iðju ef bannað er að selja númer nema þau séu skráð og bannað að selja númer og símakort nema gegn framvísun persónuskilríkja. Við hljótum því að skoða þá breytingu með jákvæðum hætti. En það er, eins og ég nefndi áðan, mikið „stóra bróður“ yfirbragð á þessu frumvarpi sérstaklega þegar kemur að varðveislu gagna og við hljótum að viðurkenna að með frumvarpinu, með þessu stóra bróður frumvarpi, sé gengið mjög gegn friðhelgi einkalífsins. Það fer ekki fram hjá neinum sem skoðar málið. Svo viðamiklar eru persónunjósnirnar, svo viðamikið er eftirlitið með borgurunum að það hlýtur að flokkast undir einhvers konar stóra bróður frumvarp þannig að við hljótum að milda þetta ákvæði og endurskoða hversu langt þurfi að ganga án þess að gengið sé harkalega gegn friðhelgi einkalífsins eins og virðist vera lagt til í þessu nokkuð róttæka frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjarskipti.

Einnig hefur verið komið inn á það í dag að félagið Netfrelsi hefur sent vandaðar ábendingar til þingmanna, athugasemdir við það frumvarp sem hér um ræðir, og finnur sérstaklega að því og mótmælir því að fjarskiptafyrirtækjum skuli gert skylt að útvega hlerunarbúnað, að yfirvöld skuli ekki standa straum af því. En alvarlegri ábendingar eru við aðrar greinar frumvarpsins og hér segir, með leyfi forseta:

„Varðveisla gagna um fjarskiptaumferð. Athugasemd við 42. grein.

Með tillögu þessari að breytingum á 42. gr. fjarskiptalaga er hart vegið að friðhelgi einkalífsins og er Netfrelsi einstaklega mótfallið fyrirhuguðum breytingum.“ — Orðalagið „er hart vegið að friðhelgi einkalífsins“ er undirstrikað og ég tek undir að svo virðist nefnilega vera. — „Um er að ræða“ — segja þeir áfram, með leyfi forseta: „varðveislu gagna sem ein og sér geta í besta falli verið leiðbeinandi við rannsókn máls. Tilskipun ESB“ — og er tilvísað í hana — „snýst að mestu leyti um að auka vernd einkalífsins og er því í hæsta máta undarlegt að einu valkostir ákvæða tilskipunarinnar sem áhugi er fyrir að leiða í lög að þessu sinni séu þau ákvæði sem ganga hvað harðast gegn tilgangi hennar. Að gefnu tilefni skal bent á að fyrirhugaðar breytingar mundu hafa í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir fjarskiptafyrirtæki sem á endanum kemur úr vasa neytenda auk þess sem óæskilegt væri að samþykkja breytingar sem þessar án þess að fyrir liggi reglur um varðveislu gagnanna, aðgang að þeim og eyðingu. Í athugasemdum kemur fram að nota megi búnað sem nú er þegar til staðar en það er fjarri lagi að flest fjarskiptafyrirtæki haldi í þessar upplýsingar nú þegar og því munu mörg þeirra þurfa að fjárfesta í búnaði til að standast þessar kröfur.“ — Þetta segja þeir netfrelsismenn um þessa grein frumvarpsins.

Þeir fjalla um fleiri atriði og margar ábendingarnar sem frá þeim koma virðist mjög vandaðar og góðar. Þetta eru þeir sem standa vörð um þá sem lifa og hrærast á netinu. Hér segir, með leyfi forseta:

„Þau gögn sem varðveita á eru leiðbeinandi um að atburður hafi átt sér stað, t.d. símtal eða sending tölvupósts, en gefa ekki mynd af því hvað fór á milli eða hverjir komu að samskiptunum. Sé litið á t.d. fyrirtæki, stofnun eða skóla gætu notendur bak við eina IP-tölu eða síma skipt tugum eða hundruðum. Gögnin hafa samt sem áður að geyma umtalsverðar persónuupplýsingar og verður að vega það þyngra en nokkra rannsóknarhagsmuni,“ segja þeir.

Og áfram:

„Einfalt er að fela slóðir sínar á netinu og í símkerfinu. Fyrirhuguð breyting mundi einnig leggja þær byrðar á einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir að stunda sambærilega gagnaöflun til verndar sér. Hægt er að áframsenda tengingar á netinu gegnum óteljandi tölvur og einfalt er að áframsenda símtöl gegnum mörg símkerfi. Búast má við aukinni notkun slíkra úrræða sem og auknu framboði slíkrar þjónustu innan lands sem utan væri ákvæði frumvarpsins fært í lög, og rannsóknir því torveldar.“

Þeir sem best til þekkja í netheimum, áttundu heimsálfunni eins og internetið er stundum kallað í dag, segja að sú umfangsmikla persónuupplýsingasöfnun sem hér er lögð til kæmi jafnvel ekki að gagni við rannsóknarhagsmuni og við rannsókn slíkra mála þegar á reyndi. Um leið og slík lagasetning er orðin að veruleika mundu glæpamennirnir og pervertarnir og þeir sem misnota frelsi upplýsingabyltingarinnar einfaldlega finna aðrar leiðir, aðrar glufur, en eftir sætu stjórnvöld með sínar umfangsmiklu persónuupplýsingasafnanir þannig að fullkomlega óréttlætanlegt væri. Og markmiðin ágætu, sem að sjálfsögðu ber að virða og við eigum öll að vinna að, um að efla rannsókn og gæta þess að auðveldara sé að koma böndum á þessa menn, mundu hvort eð er ekki skila neinum árangri.

Annað sem ég vildi vísa í hér við þessa 1. umr. og kemur fram hjá þeim netfrelsismönnum er athugasemd er varðar 47. gr., upplýsingar um notanda símanúmers eða IP-tölu án undangengins dómsúrskurðar, með leyfi forseta:

„Óréttlæti er eina orðið sem lýsir fyllilega fyrirhuguðum breytingum á 47. gr. Telja verður að hér sé á ferðinni ein sú harkalegasta árás á réttláta réttarmeðferð sem sést hefur. Hafi notandi kosið að vera nafnlaus í sínum fjarskiptum verður að telja eðlilegt að krafa sé gerð til lögreglu að hún leiti heimildar dómara áður en gengið er á rétt notandans til friðhelgi einkalífsins. Það má telja eðlilegan hluta réttlátrar málsmeðferðar að dómari vegi og meti grundvöll þess að óskað sé eftir upplýsingum um hver sé notandi símanúmers eða IP-tölu, m.a. með tilliti til athugasemdanna sem við gerum við fyrirhugaðar breytingar á 42. gr. Réttlát réttarmeðferð og vernd persónunnar er grundvöllur lýðræðis og því sér Netfrelsi sér ekki annað fært en að leggjast alfarið á móti fyrirhugaðri breytingu í sterkustu merkingu þess hugtaks.“

Hér er sterkt að orði kveðið og ég tek undir margt af því sem kemur fram í athugasemdum og tilmælum þeirra netfrelsismanna um leið og ég þakka þeim fyrir að senda okkur svo vandaða yfirferð á málinu áður en það kemur hér til umræðu þannig að taka megi tillit til hennar, blanda henni inn í umræðuna og fá viðhorf hæstv. ráðherra til þeirra athugasemda sem þarna koma fram. Hér eru mjög alvarlegar athugasemdir gerðar við frumvarpið, hvernig það vegi að friðhelgi einkalífsins eins og hér segir, og er í öðru lagi „ein sú harkalegasta árás á réttláta réttarmeðferð sem sést hefur“. Þetta eru stór orð. Þau hljóta að kalla á viðbrögð yfirvalda, viðbrögð þess hæstv. ráðherra sem flytur frumvarpið. Þetta eru því athyglisverðar athugasemdir sem er mjög vert að gæta vel að.

Ég hef farið yfir þau mál í þessu frumvarpi sem mér finnst mestu máli skipta hér við 1. umr. og vona ég að okkur takist í hv. samgöngunefnd að breyta þessu frumvarpi mjög og tóna niður umfang varðveislu gagna um fjarskiptaumferð og hvernig það að mínu mati vegur að friðhelgi einkalífsins. Við verðum að gæta hófs, leita allra leiða til að auka og efla og koma til móts við rannsóknarhagsmuni en að sjálfsögðu gæta um leið að persónuverndarhagsmunum, að þeir verði ekki algjörlega fyrir borð bornir með þeim árangri að eftir sitji stjórnvöld með umfangsmiklar heimildir til eftirlits með notkun fólks á fjarskiptum og fjölmiðlum, kannski til lítils gagns eða einskis. Glæpamennirnir finna alltaf glufurnar og fara þá aðrar leiðir til að stunda sína óhugnanlegu iðju. Þarna verður að stíga varlega til jarðar og því hlýtur að liggja til grundvallar að grunur um refsiverða háttsemi liggi fyrir áður en heimild er veitt til svo umfangsmikillar öflunar persónuupplýsinga um fjölmiðlun og fjarskipti einstaklinganna. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa að mörkin liggi einhvers staðar þar og ekki verði gengið svo langt án þess að fyrir liggi grunur um refsiverða háttsemi.

Hérna virðist gengið allt of langt, við verðum að gæta hófs, verðum að fara varlega, þó svo að engum blandist hugur um að það verði að efla eftirlit upp að einhverju marki, efla aðgengi lögregluyfirvalda að þessum glæpamönnum og svíðingum sem misnota internetið og upplýsingafrelsið og hve auðvelt er að hafa samskipti, níðast á öðru fólki í gegnum fjarskiptin og stunda glæpamennskuna og liðka til fyrir henni í gegnum fjarskiptin. Það á að sjálfsögðu að finna leiðir til að stemma stigu við því án þess þó að safna gögnum um fjölmiðla- og fjarskiptaneyslu hvers einasta Íslendings ár aftur í tímann.