131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[17:00]

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil stinga inn í umræðuna fáeinum orðum um frumvarpið sem hér er til umræðu, um breytingu á lögum um fjarskipti, þar sem lagðar eru til nokkrar breytingar á fjarskiptalögunum frá 2003.

Fyrsta atriðið sem frumvarpið leggur til er að taka upp gerð svonefndrar fjarskiptaáætlunar og skipa fjarskiptaráð. Almennt má segja um þær tillögur að þær séu til bóta. Ég tel rétt að skoða þær í meðförum þingsins með jákvæðu hugarfari, að Alþingi ákveði reglulega áætlun í þessum efnum samkvæmt þeim markmiðum sem menn koma sér saman um. Þau sem nefnd eru í 1. gr. frumvarpsins eru að mínu viti mjög víðtæk þannig að ég sé ekki í fljótu bragði ástæðu til að nefna önnur atriði en þar eru tilgreind. Mér finnst þó að vísu að sum þeirra atriða séu ansi víðtæk og kannski meira vandamál að afmarka þau fremur en að tiltekin atriði kunni að vera út undan eða ekki talin upp í fjarskiptaáætlun. Almennt held ég að það sé til bóta að leitast við að gera slíka áætlun.

Ég vil þó segja að þingsályktanir um þessi efni eru fyrst og fremst stefnumarkandi yfirlýsingar og hafa tilhneigingu til að raskast í meðförum þingsins vegna þess að í þeim felast ekki neinar fjárhagslegar ákvarðanir. Þær koma síðan fram í fjárlögum en við sjáum af samgönguáætlunum, bæði nú og fyrr, að áætlanirnar hafa tilhneigingu til að riðlast, sérstaklega vegáætlun. Skýrasta dæmið um það er samgönguáætlun sem liggur fyrir þinginu og var rædd í síðustu viku. Þar eru lagðar til verulegar breytingar á áætluninni sem samþykkt var fyrir tveimur árum. Það er kannski helsti gallinn við þingsályktanir, að stefnan sem mótuð er á hverjum tíma kann að vera ágæt en hún hefur tilhneigingu til að breytast, og stundum snögglega. Þær eru því ekki mjög áreiðanlegar, áætlanir sem ákveðnar eru með þessum hætti. Þó tel ég, þrátt fyrir þennan galla, til bóta að gera slíka áætlun.

Ég tel fyllstu ástæðu til að þingið taki til athugunar hvernig megi ráða bót á helsta galla þingsályktana af þessu tagi. Það er afleitt mál að þær séu svo viðkvæmar fyrir breytingum og líklegt að þær taki breytingum fljótlega eftir að þær eru samþykktar. Það dregur verulega úr gildi þeirra. Ég hygg að besta leiðin til að reyna að ráða bót á þeim galla væri að tengja fjármögnunina eitthvað við ákvörðunina um stefnuna þannig að líklegra sé að ákvörðun sem tekin er til lengri tíma standist þegar fram líða stundir.

Það er gert ráð fyrir því að fjarskiptaáætlun sé til sex ára. Í sjálfu sér geri ég ekki athugasemd við það. Hana á að endurskoða á þriggja ára fresti en í ljósi vegáætlunar sem er til fjögurra ára og endurskoðuð á tveggja ára fresti má heita öruggt að það sem menn setja niður í sex ára áætlun mun ekki standast. Reynslan af vegáætlun segir okkur að ákvarðanir fyrsta árið muni standast, á öðru ári sé líklegt að þær standist að mestu leyti en það sem áætlað sé lengra fram í tímann standist líklega ekki. Þetta er reynslan af því sem menn ákveða til fjögurra ára. Ég hygg að þegar menn gera áætlun til sex ára sé líklegt að breytingarnar verði meiri en þegar áætlun er til fjögurra ára. Þetta vildi ég nefna til að halda því til haga hver reynslan er af þessum áætlunum. Ég held að formið sé ekki það heppilegasta. Þessi þingsályktun er pólitísk stefnuyfirlýsing en engin skuldbinding sem fylgir henni. Hins vegar held ég að innihaldið, þ.e. áætlanagerðin, sé skynsamleg.

Í öðru lagi, um fjarskiptaráðið, þá tek ég undir það sem hér hefur komið fram að ákvæði um skipan þess eru mjög óljós og þurfa að verða miklu skýrari. Ég beini því til samgöngunefndar að fara yfir það mál og búa í betri búning. Verksvið þess er líka opið. Það er út af fyrir sig ágætlega talið upp í stafliðum a–d en það er hins vegar opið að öðru leyti á tvo vegu, annars vegar er stafliður e, sem kveður á um annað sem ráðherra kann að fela þessu samkeppnisráði. Hins vegar er upptalningin á verkefnum sem það skuli sinna meðal annars, sem opnar fyrir að ráðherra getur ákveðið að eitthvað sem ekki fellur undir þessa upptalningu bætist við sem verkefni. Það finnst mér fullopið til að góður bragur geti talist á lagasetningunni. Það þarf í sjálfu sér ekki að vera ágreiningur um innihaldið af þeim ástæðum.

Ég vil þá víkja að 2. gr. frumvarpsins, sem kveður á um að fjarskiptafyrirtæki skuli án endurgjalds tryggja þar til bærum yfirvöldum aðgang að búnaði til að hlera símtöl og til annarrar löglegrar gagnaöflunar. Varðandi þetta atriði vil ég segja að ég tel eðlilegt að fjarskiptafyrirtækin séu skyldug að heimila lögregluyfirvöldum aðgang að kerfinu eins og þarna er gert ráð fyrir en mér finnst óeðlilegt að leggja kostnaðinn á fyrirtækin sjálf. Ég mæli því með því að ríkið sjálft leggi fram búnaðinn og beri þann kostnað sem af því leiðir. Ég tel það m.a. eðlilegt í ljósi þess hvernig þessi markaður er saman settur, af tveimur mjög stórum fyrirtækjum og síðan öðrum sem eru mjög lítil í samanburði við þau tvö. Við þurfum á smærri fyrirtækjunum að halda til að líklegra sé að þessi fjarskiptamarkaður virki samkvæmt því sem við viljum. Við þyrftum að fá fleiri fyrirtæki til að keppa við þau sem fyrir eru og hvert við annað en það að leggja kvaðir á fyrirtæki virkar íþyngjandi og dregur úr möguleikunum á samkeppni. Ég tel að við megum ekki, í ljósi þess hvernig markaðurinn lítur út í dag, gera kvaðir af þessum toga, þ.e. ef kostnaður við það nemur háum fjárhæðum. Ég hef út af fyrir sig ekki tölur um það en ég geng út frá því að þetta sé umtalsverður kostnaður og ákveðin hindrun fyrir ný fyrirtæki. Auk þess finnst mér það út af fyrir sig eðlilegt sjónarmið að yfirvöldin, sem telja sig þurfa að hafa aðgang að þessum kerfum til að afla upplýsinga, leggi til þann búnað sem til þarf og hafi hann undir höndum og eigi hann.

Í þriðja lagi vil ég víkja að 5. gr. frumvarpsins, um skyldu um reikisamninga, þar sem kveðið er á um að ekki er skylt fyrirtæki að veita öðrum aðgang að nýjum GSM-farsímastöðvum fyrstu tvö árin eftir að þær eru reistar. Ég er ekki alveg búinn að afla mér allra upplýsinga um þetta mál til að átta mig á því að hve miklu leyti þetta er nauðsynlegt, ef hægt er að rökstyðja þetta ákvæði með því að það sé nauðsynlegt til að fyrirtæki sem ræðst í fjárfestinguna geti aflað tekna fyrir henni áður en samkeppninni er hleypt um viðkomandi fjarskiptastöð. En ég set varnagla um þetta ákvæði. A.m.k. er augljóst mál að það dregur úr samkeppninni og dregur úr möguleikum fyrirtækja á að keppa. Miðað við útbreiðslu GSM-netsins í dag má ætla að nýjar stöðvar séu fyrst og fremst í dreifbýlinu, þar sem ekki hefur verið útbreiðsla á þessu. Ég held að það þurfi a.m.k. að skoða vandlega í nefnd hvaða áhrif þetta kann að hafa á stöðu notenda sem kunna að bætast við. Það kann að vera að önnur sjónarmið eigi við ef ný GSM-stöð er reist í þéttbýli þar sem fyrir eru aðrir möguleikar.

Í fjórða lagi vil ég víkja að 6. gr. frumvarpsins. Þar er vikið að gagnaflutningi frá útlöndum. Þar er fjarskiptafyrirtækjum gert skylt að gefa áskrifendum sem þess óska kost á að sjá hvenær þeir greiða fyrir gagnaflutning frá útlöndum. Þetta fjallar um svonefnt niðurhal, t.d. um sæstrenginn sem menn sækja sér gögn um til útlanda og flytja til landsins. Ég held að við þurfum að skoða þetta mál alvarlega. Að svo miklu leyti sem ég er kunnugur í þessum efnum líta þau þannig út fyrir mér að þeir sem eiga sæstrenginn, þennan nýja, sem ég held að séu Síminn og Og Vodafone fyrst og fremst, hafa bundist samtökum um að rukka íslenska notendur fyrir gagnaflutninga frá útlöndum, einhvers konar landamæragjald. Það er ákaflega óeðlilegt í internetkerfinu sem slíku, sem byggir á því að notandinn geti farið um kerfið, sent gögn og sótt gögn án tillits til landamæra og gjaldskráin sé ekki með landamærastöðvum þar sem menn þurfi að borga sig inn og út úr landinu. Þessi gjaldtaka hefur að mínu viti verið ákaflega óeðlileg. Hún hefur verið íslenskum notendum dýr og hún er ástæðulaus. Þessir gagnaflutningar endurspegla fyrst og fremst þann veruleika sem er óháður vegalengdum og því ætti ekki að vera gjaldtaka við íslensku lögsöguna, þar sem tvö fyrirtæki sem hafa eignarhald á flutningsleiðinni sammælast um að okra á íslenskum neytendum. Það hefur verið gert og íslenski Síminn, fyrirtæki ríkisins, hefur verið í fararbroddi í þeim efnum. Þetta er óeðlilegt ástand að mínu viti og ég tel að svo eigi ekki að vera og íslenska ríkið, sem eigandi Símans og aðili að þessu máli, eigi að beita sér fyrir því að þessi gjaldtaka verði felld niður. Ég skora á hæstv. samgönguráðherra að beita sér fyrir því að svo verði.

Í fimmta lagi vík ég að þessari margumræddu 7. gr. sem heimilar eða skyldar fjarskiptafyrirtæki til að geyma tilteknar upplýsingar um fjarskiptaumferð í allt að eitt ár. Ég held að menn ættu að hugsa sig vandlega um áður en þeir fara inn á þessar brautir. Þarna er ekki verið að setja í lög ákvæði sem tryggi lögregluyfirvöldum rétt eða möguleika á að afla sér gagna eða rannsaka mál. Þarna er gengið miklu lengra. Það á að vera skylda fjarskiptafyrirtækja að geyma víðtækar upplýsingar um notendur í miklum skrám sem lögregluyfirvöld geti síðan gramsað í þegar þeim sýnist. Þetta er algerlega óeðlilegt, virðulegi forseti, jafnvel þó ríkislögreglustjóri fari fram á það. Mér liggur við að segja að í ljósi fyrri tillagna frá því ágæta embætti sé þetta óeðlilegt, að hann skuli fara fram á það. Mér hefur fundist sem þarfir ríkislögreglustjóra fyrir upplýsingar væru svo yfirgengilegar að þær næðu ekki neinu tali, eins og kom fram í frumvarpi á síðasta ári. Enda var það mál snúið niður í þinginu sem betur fer.

Ég spyr bara: Hvernig dettur mönnum þetta í hug, að fara að safna skrám um hvern og einn Íslending sem notar síma til þess að geta gáð að því seinna hvort hann hafi verið að gera eitthvað sem hugsanlega er ólöglegt? Það hlýtur að vera grundvallaratriði að þegar lögregluyfirvöld hefjast handa við að rannsaka atferli einhvers einstaklings liggi fyrir rökstuddur grunur um ólögmætt athæfi. Sú hlýtur að vera forsendan. Það hlýtur að vera forsenda þess að þau yfirvöld fari fyrir dómstóla, leggi grunsemdir sínar þar fram og fái úrskurð sem heimilar rannsókn. (Gripið fram í.)

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að skylda fjarskiptafyrirtæki til að geyma allar upplýsingar án tillits til þess hvort nokkur grunur sé á ferðinni. Það er þar sem gengið er allt of langt að mínu viti, virðulegi forseti. Dettur nokkrum manni annað í hug en að þetta verði misnotað þegar allar skrárnar sem fylla hvern skjalaskápinn á fætur öðrum liggja fyrir? Veit einhver hér inni um það kerfi sem ekki hefur verið misnotað þegar menn hafa safnað víðtækum upplýsingum um einstaklinga? Er einhver hér inni tilbúinn til að fullyrða að það muni ekki verða misnotað?

Nei, það er enginn tilbúinn til þess, virðulegi forseti. Svo mikið vil ég leyfa mér að fullyrða. Ég er alveg viss um að hæstv. samgönguráðherra er það skynsamur að hann mun ekki fullyrða það hér. Við eigum ekki að bjóða hættunni heim. Menn höfðu svona kerfi í kommúnistaríkjunum. Stasi hafði svona kerfi. Það var misnotað og það kom illu orði á þá stofnun. Það mun verða misnotað, þetta kerfi, ég bara leyfi mér að fullyrða það. Lögregluyfirvöld eru ekkert of góð til þess að fara eðlilegar leiðir til að fá heimildir fyrir því að taka upp rannsóknir.

Ég velti fyrir mér hvernig erlend þjóðþing mundu taka á svona ákvæði, hjá milljónaþjóðum þar sem ekki eru einu sinni til þjóðskrár, þar sem allt verður vitlaust í þjóðfélaginu ef menn reifa þau mál að taka upp þjóðskrá eða gefa út persónuskilríki. Það voru háværar umræður og deilur í nokkrum þjóðfélögum árum saman yfir því. Menn telja það persónunjósnir. Hvernig halda menn að umræðan í slíkum þjóðfélögum yrði ef þau sæju tillögu af þessu tagi? (Gripið fram í: Í Bandaríkjunum?) Til dæmis í Bandaríkjunum eða Bretlandi. Ég veit að hæstv. samgönguráðherra þekkir umræðuna um persónukortin í Bretlandi.

Nei, virðulegi forseti, við skulum ekki fara að búa til skjalaskápa persónuupplýsinga. Gerum það ekki nema þegar fyrir liggur rökstuddur grunur um ólögmætt athæfi. Fylgjumst ekki með einstaklingunum fyrr. Það eru mín sjónarmið í þessu máli. Fleira ætla ég ekki að segja um þetta mál. Það er af ýmsum toga, efnið í því, og afstaða mín er þá breytileg eftir þeim efnisatriðum. Að frátöldum þessum hlerunarmálum er ég tiltölulega jákvæður í þessu efni.