131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[17:21]

Kristinn H. Gunnarsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að til þess að framkvæma þetta svo að öruggt sé að nái yfir alla verði menn að fara svipaða leið og símafyrirtækin hafa gert. Þau hafa verið með eitthvert landamæragjald á þá sem flytja gögn til landsins. Ég hygg að íslensk yfirvöld yrðu þá að tryggja að allir sem koma með síma inn til landsins hefðu þá þannig að hægt yrði að fylgjast með þeim eða skrá úr þeim þær upplýsingar sem menn telja sig hafa.

Svo eru tölvurnar, menn flytja þær líka á milli landa. Ég held satt að segja að mikil vandkvæði yrðu á að framfylgja þessu, vandkvæði, erfiðleikar og ósanngjarnir hlutir. Lítum t.d. á þetta með erlenda niðurhalið, að vera með gjaldtöku innanlandsfyrirtækjanna til að tryggja sig fyrir erlendri samkeppni. Hún þýðir að íslenskir neytendur geta ekki vistað heimasíður sínar erlendis nema borga fyrir það sérstakt gjald. Þeir geta ekki sótt gögn af heimasíðum erlendis frá, jafnvel þó að þar eigi í hlut íslensk fyrirtæki, nema borga sérstakt gjald. Þessir hlutir eru einfaldlega ósamrýmanlegir þeirri tækni og því samskiptamynstri sem menn eru að tileinka sér í þeim heimi sem er að verða til í ljósi þessarar nýju tækni.

Ég vildi, virðulegi forseti, kannski aðeins bæta því við að ég leggst gegn því að skylda fjarskiptafyrirtækin til að afhenda þessar upplýsingar og halda þeim saman. Mér finnst líka eiga að koma til álita að setja í lögin ákvæði sem takmarki möguleika fjarskiptafyrirtækjanna til að safna þessum upplýsingum og geyma þær af eigin hvötum.