131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[17:25]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir mjög athyglisverða umræðu og gagnlega. Það segir okkur að það frumvarp sem hér er til meðferðar er efnismikið og þess vegna mikilvægt að fara rækilega yfir það.

Það eru nokkur atriði sem ég vildi koma inn á, gera athugasemdir við og fjalla örlítið um. Í fyrsta lagi vil ég nefna það sem kom fram hjá nokkrum hv. alþingismönnum um skipan fjarskiptaráðs. Engin gagnrýni kom fram á nauðsyn þess að koma á þessum vettvangi, sem ég tel að sé mikilvægt, en hv. þingmenn veltu fyrir sér samsetningu ráðsins. Ástæðan fyrir því að í frumvarpinu er ekki tilgreint hvaða fulltrúar eigi þarna að vera er að í þessari grein er geysilega mikil hreyfing og mikill breytileiki. Það er alveg augljóst að í þeirri reglugerð sem gert er ráð fyrir að setja verður fjallað um skipan ráðsins að öðru leyti en því sem fram kemur í lögunum. Þar er nauðsynlegt að kalla til fulltrúa símafyrirtækja, neytenda og þeirra sem eðlilegt er að fá til þess að fjalla um fjarskiptamál á þessum vettvangi. Ég tel gagnlegt að nefndin taki þetta til skoðunar og meðferðar og hef ekkert við því að segja.

Hv. þingmenn hafa gert hér mikið að umtalsefni ákvæði 2. og 7. gr., annars vegar varðandi búnað til hlerunar og hins vegar um geymslu gagna. Ég vil koma nánar að því á eftir en fyrst vil ég aðeins fara nokkrum orðum um það sem kom fram hjá hv. þingmanni Kristni H. Gunnarssyni, sem því miður er nú genginn úr salnum, um gildi áætlana.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að fjarskiptaáætlun sé samin og hún lögð fram og það er tilgreint í 1. gr. um hvað hún skuli fjalla. Vegna þess sem hv. þingmaður nefndi vil ég nefna að það er alveg deginum ljósara að hér er fyrst og fremst um það að ræða að fjarskiptaáætlun á að móta stefnu og leggja áherslu á meginatriði. Jafnframt er alveg ljóst að slíkar áætlanir eru ekki einhver óumbreytanlegur fasti sem tekur ekki tillit til annarra ytri aðstæðna.

Þingmaðurinn tók til samanburðar samgönguáætlun en það er alveg ljóst að samgönguáætlun verður að taka tillit til fjárlaga hverju sinni, taka tillit til þeirra framlaga sem Alþingi ákveður að skuli fara til tiltekinna verkefna, alveg með sama hætti og aðrar áætlanir sem eru settar fram og samþykktar hér á Alþingi.

Við þekkjum það bara í okkar eigin lífi að við setjum okkur áform og áætlanir um lífsstíl og ýmsa framvindu en allt verður það að taka tillit til aðstæðna hjá hverjum og einum. Hið sama hlýtur að gilda um þessar áætlanir.

Að öðru leyti fagna ég viðbrögðum þingmanna hvað varðar þessi ákvæði en auðvitað þarf að sníða þau að veruleikanum sem við lifum við.

Hvað varðar geymslu gagna er alveg ljóst að símafyrirtækin varðveita nú þegar, eins og fram hefur komið í umræðunni, gögn og þeim er safnað. Það er því ekkert nýtt. En í frumvarpinu, eins og fram hefur komið, er gert ráð fyrir ákvæðunum í 2. og 7. gr. að ósk lögregluyfirvalda.

Ég vil að gefnu tilefni vísa til þess að sérstök lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga eru í gildi. Þau eru að sjálfsögðu geysilega mikilvæg og afskaplega mikilvægt að Persónuvernd fylgist vel með og sinni vel skyldum sínum. Hvað löggjöfina varðar hljótum við að sjálfsögðu að fara að þeim lögum, enda er beinlínis gert ráð fyrir því í frumvarpinu, sbr. 2. mgr. 7. gr. Ég held því að hv. þingmenn ættu ekki að hafa verulegar áhyggjur af því.

Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram hlýt ég að minna hv. þingmenn á miklar umræður sem fram fóru á síðasta þingi að frumkvæði hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og ætla, með leyfi forseta, að rifja upp hluta úr ræðu hv. þingmanns, sem var að fjalla um fjarskiptalöggjöfina.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Hæstv. forseti. Á Stöð 2 í gærkvöldi kom fram að lög sem Alþingi samþykkti í fyrra, þ.e. fjarskiptalög, auðveldi barnaníðingum iðju sína á netinu. Fram kom einnig að þetta væri mat lögreglunnar sem varaði Alþingi við því að samþykkja lögin. Ríkislögreglustjóri lagði til heimild í lögin í því skyni að varðveita gögn um fjarskiptaumferð í allt að sex mánuði sem samgöngunefnd tók ekki til greina. Staðan er því sú að ekki er hægt að rannsaka netnotkun með eðlilegum hætti vakni grunur um glæpsamlegt athæfi, eins og t.d. þegar reynt er að lokka börn til fylgilags, en lögreglan óttast að löggjöfin eins og hún er nú sé til þess fallin að hvetja til brotastarfsemi á netinu og draga athygli erlendra brotamanna að Íslandi.

Það vekur vissulega furðu að samgöngunefnd hafi ekkert gert með þessar alvarlegu athugasemdir hjá ríkislögreglustjóra, sér í lagi í ljósi þess að hvers konar brotastarfsemi, ekki síst upplýsingar um aðgerðir barnaníðinga á netinu, er orðin óhugnanlega algengur atburður í þjóðfélagi okkar. Ríkislögreglustjóri hefur fengið til rannsóknar flestar tegundir brota á internetinu þar sem niðurstaða hefur oltið á aðgengi að gögnum á netinu. Ríkislögreglustjóri vísar í tilskipun um persónuvernd sem samgöngunefnd lagði ekki til að yrði beitt þar sem segir að ríkið geti í þágu þjóðaröryggis, almannaöryggis, til varnar rannsókn og saksókn afbrota tekið upp í lög úrræði til að tryggja varðveislu gagna í takmarkaðan tíma. Ég gerði samgönguráðherra viðvart um þessa umræðu sem hann gat ekki verið viðstaddur, var á förum til útlanda, en ég tel reyndar að málið snúi að Alþingi og það sé raunar skylda samgöngunefndar að taka það upp og leggja til nauðsynlegar breytingar sem reisi þær girðingar að lögreglan geti með eðlilegum hætti nálgast gögn á netinu sem nauðsynleg eru til að hindra eða rannsaka glæpi. Hvet ég til þess að ákvæði sem ríkislögreglustjóri hefur lagt til verði lögfest áður en þingi lýkur.“

Ég held að hv. þingmenn ættu að kynna sér þessa umræðu, ekki síst hv. þingmenn Samfylkingarinnar, samflokksmenn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem tóku þátt í umræðunni. Hv. þm. Þuríður Backman tók þátt í henni og tók undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég held því að hv. þm. Jón Bjarnason ætti að fara í smiðju til hv. þm. Þuríðar Backman áður en hann heldur fleiri ræður um þessi efni.

Ég mátti til með, virðulegur forseti, að rifja þetta upp vegna þess að ég tók mikið mark á athugasemdum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og m.a. þess vegna er frumvarpið komið fram að höfðu samráði við ríkislögreglustjóra sem hafði áður komið þessum ábendingum á framfæri, eins og fram hefur komið fram í umræðunni og fram kom í ræðu minni.

Ég undrast því satt að segja alveg stórlega þau viðbrögð sem hér hafa komið fram hjá hv. þingmönnum. Ég ber mikla virðingu fyrir hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og þeim þingmönnum sem vekja athygli á veikleika í löggjöf okkar. Ég tel það skyldu mína sem samgönguráðherra og ráðherra fjarskiptamála að huga að slíkum ábendingum. Ég vænti þess að hv. samgöngunefnd undir forustu hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar, sem hefur tekið þátt í umræðunni og vakið athygli á þessu, fari vandlega yfir þessi mál. Ég veit að hann mun leggja sig fram um að finna skynsamlegustu og bestu leiðirnar í málinu, enda frumvarpið samið m.a. að höfðu samráði við formann samgöngunefndar. Ég hef undrast stórlega viðbrögð hv. þingmanna en vona að þeir átti sig á því að þeir eru á fullkomnum villigötum að reyna að gera tortryggileg þau ákvæði sem miða að því að koma í veg fyrir misnotkun á hinu feiknarlega mikilvæga kerfi, fjarskiptakerfinu, og sérstaklega farsímunum.

Virðulegur forseti. Að lokum vil ég ítreka að persónuverndarlöggjöfin er geysilega mikilvæg og öll ákvæði frumvarpsins miða að því að taka tillit til hennar. Öll ákvæði frumvarpsins leggja áherslu á það og er vitnað sérstaklega til þeirra. Með sama hætti tel ég að við þurfum að huga að öðrum liðum í frumvarpinu sem eru til bóta og ég vænti þess að hv. þingmenn vinni að afgreiðslu frumvarpsins í hv. samgöngunefnd í ljósi þeirra upplýsinga sem hér liggja fyrir.