131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[17:47]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki að segja að það afsaki okkur að taka upp svo víðtækar hlerunarheimildir eins og hér er verið að leggja til þó að það sé gert í öðrum löndum, en mér finnst samt skipta máli að vita hvaða aðrar þjóðir það eru. Meginþorri þjóða í heiminum, eins og kom fram í umræðunni, er alls ekki með neina þjóðskrá eða nein persónunúmer. Hvers vegna erum við svona miklu hættulegri en aðrar þjóðir?

Ég vísa aftur til þeirrar áherslu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að styrkja samfélagið, styrkja velferðarþjónustuna, styrkja siðferðisþrek einstaklinganna innan frá frekar en að leggja áherslu á lögregluvaldið.

Mér er spurn og hefur hæstv. ráðherra t.d. velt því fyrir sér hvernig á að fara með þá ferðamenn sem koma hingað til lands og kaupa símakort, frelsiskort, og koma með tölvuna sína og kannski eiga þeir hana ekki einu sinni. Hvernig sér ráðherra þetta í framkvæmd fyrir utan það hversu skynsamlegt er það?

Við viljum náttúrlega ekki skapa möguleika fyrir aukna glæpastarfsemi en við erum samt samfélag einstaklinga og við eigum fyrst og fremst að byggja okkur upp siðferðislega innan frá en byggja ekki upp slíkt lögreglukerfi þar sem nánast hvert einstakt spor okkar er tekið upp eins og hér er verið að leggja til.

Ég ítreka spurningu mína: Hvernig förum við með ferðamenn? Hvað með þær þjóðir þar sem engin slík skráning á íbúum er til?