131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Fjarskipti.

738. mál
[18:23]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er athyglisvert að hæstv. samgönguráðherra hefur í engu svarað hvaða kostnað þetta hefur í för með sér fyrir fyrirtækin. Mér finnst mjög sérstakt að menn hafi ekkert kannað það. Það virðist eins og það skipti engu máli fyrir Sjálfstæðisflokkinn hvaða kostnað verið er að leggja á fyrirtækin í landinu. Mér finnst það vera með ólíkindum.

Það er ekki eingöngu verið að ræða um búnaðinn heldur snýst þetta einnig um það að verið er að leggja á fjarskiptafyrirtækin að safna upplýsingum og það eigi að vera ákveðnar verklagsreglur. Allt þetta kostar fjármuni. Auðvitað eiga menn að reikna þetta dæmi til enda og fara yfir það í samræmi við stærð og umfang fyrirtækja í landinu. Mér finnst með ólíkindum að hlýða hér á hæstv. ráðherra víkja sér undan því að svara þessu.

Hvað varðar það að þetta brjóti ekki í bága við neinar reglur Evrópusambandsins þá er nú engu að síður bent á það að svo gæti verið með því að leggja þessa kvöð á þessi litlu fyrirtæki og á fyrirtæki sem veita þessa þjónustu. Ef svo er þá er náttúrlega málið dautt.