131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Stefna í fjarskiptamálum 2005--2010.

746. mál
[18:25]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um stefnu í fjarskiptamálum fyrir árin 2005–2010.

Staða okkar Íslendinga í fjarskiptamálum er góð í alþjóðlegum samanburði. Við búum við afar gott aðgengi að fjarskiptum, hagkvæmt verð og rekstraröryggi kerfa er gott. Skyldur ríkisins, sem skilgreindar eru í fjarskiptalögunum sem alþjónusta, þ.e. aðgangur almennings að grunnfjarskiptaþjónustu, eru nær 100% uppfylltar hérlendis og gerum við betur en flestallar nágrannaþjóðir okkar í þessu efni. Þetta má fyrst og fremst þakka þeirri uppbyggingu sem fjarskiptafyrirtækin hafa staðið að og þeim breytingum sem þessi ríkisstjórn hefur staðið fyrir á undanförnum árum á löggjöf um fjarskipti. Þessi góða staða breytir því ekki að víða má gera betur og við verðum að setja okkur framsækin markmið á þessu mikilvæga sviði og fylgja þeirri hröðu þróun sem er í fjarskiptum og vera helst í fremstu röð.

Hæstv. forseti. Ég ákvað í ársbyrjun 2004 að ráðist yrði í gerð fjarskiptaáætlunar fyrir árin 2005–2010 og að með henni yrðu lögð drög að heildstæðri stefnu í fjarskiptamálum á Íslandi. Í ljósi mikillar umræðu um þróun og kröfur í fjarskiptum ákvað ég að skipa sérstakan stýrihóp til að vinna að gerð þessa verkefnis. Var það í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum upplýsingasamfélagsins sem hefur verið unnið eftir undir kjörorðinu Auðlindir í allra þágu. Stýrihópurinn hafði samráð við hagsmunaaðila til þess að mynda brú til þeirra sem annars ættu ekki aðild að þessu mikilvæga starfi. Auk þess var opnað sérstakt umræðuþing á heimasíðu samgönguráðuneytisins sem gerði almenningi og öðrum hagsmunaaðilum sem þess óskuðu mögulegt að koma að skoðunum sínum um gerð og innihald þessarar stefnu í fjarskiptamálum fyrir tiltekið tímabil.

Hæstv. forseti. Hér er um tímamótaverkefni að ræða. Í fyrsta sinn er lögð fram heildarstefna í fjarskiptamálum þjóðarinnar til næstu framtíðar. Þær stórkostlegu breytingar sem hafa orðið í fjarskiptamálum hér á landi með breyttri fjarskiptalöggjöf undanfarin ár hafa m.a. leitt til afnáms einkaréttar og öflugrar samkeppni á fjarskiptamarkaði. Með þessum breytingum var lagður grunnur að hlutafélagavæðingu Landssíma Íslands og sölu hans. Jafnframt er sú tíð liðin að stjórnvöld geti beitt fyrirtækinu til þess að framkvæma vilja sinn og stefnu í fjarskiptamálum. Fjarskiptaáætluninni sem hér er lögð fram og stefnu tengdri henni er ætlað að taka við sem vettvangur og tæki stjórnvalda til þess að ná fram markmiðum ríkisstjórnarinnar á hverjum tíma í fjarskiptamálum í breyttu umhverfi fjarskipta almenningi til heilla. Hið breytta umhverfi fjarskipta leiðir til gjörbreyttrar aðkomu stjórnvalda að málaflokknum og tekur fjarskiptaáætlun mið af því. Stjórnvöld verða að tryggja laga- og viðskiptaumhverfi sem tekur mið af samkeppnisreglum. Gæta þarf jafnræðis og gagnsæis við ákvarðanatöku og um leið örva samkeppni. Jafnframt þessu þurfa stjórnvöld að gæta hagsmuna og réttinda neytenda, stuðla að jöfnun verðs og tryggja almenna grunnþjónustu. Mikilvægt hlutverk ríkisins er jafnframt að hafa eftirlit með fjarskiptum en um leið er ríkið stærsti einstaki kaupandinn að fjarskiptaþjónustu.

Fjarskiptalöggjöfin setur stjórnvöldum skorður um afskipti af fjarskiptamarkaði og takmarkar einnig möguleika þeirra til að leggja kvaðir á fjarskiptafyrirtæki umfram þær sem þegar er kveðið á um í löggjöfinni. Hlutverk stjórnvalda verður m.a. að setja leikreglur á markaði og tryggja eftirlit með því að þeim sé fylgt, öllum landsmönnum til hagsbóta.

Reynslan sýnir að markaðsöflin sjá sér hag í að veita fjarskiptaþjónustu til 90%– 98% landsmanna eftir tegund þjónustu. Dæmi um þetta eru ADSL-þjónusta, GSM-farsímaþjónusta og núverandi dreifing sjónvarps. Þátttaka ríkisins í uppbyggingu fjarskiptaþjónustu afmarkast því við þau verkefni þar sem markaðsaðilar sjá sér ekki fært að veita ásættanlega þjónustu og verð.

Í fjarskiptaáætlun er skýrð aðkoma ríkisins annars vegar og markaðarins hins vegar varðandi þróun fjarskipta hérlendis. Er þar gert ráð fyrir að markaðsaðilar leiði uppbyggingu á fjarskiptamarkaði þar sem þeir treysta sér til. Þar sem markaðnum sleppir koma stjórnvöld að máli með stuðningi við uppbyggingu á grundvelli útboða. Það er alveg ljóst að ekki er ætlunin að ríkið hefji eigin fjarskiptarekstur. Aðkoma ríkisins að uppbyggingu fjarskiptaþjónustu afmarkast því við þau verkefni þar sem markaðsaðilar sjá sér ekki fært að veita ásættanlega þjónustu og verð.

Í fjarskiptaáætluninni er skilgreind nánar aðkoma og markmið stjórnvalda í fjarskiptamálum til næstu ára, auk þess sem gerð er grein fyrir ástandi og horfum í fjarskiptamálum í landinu í ljósi alþjóðlegrar þróunar. Með samræmdri stefnumótun er stefnt að því að auka samkeppnishæfni landsins og stuðla að framþróun atvinnulífs og ná fram hagkvæmri nýtingu fjármagns og samræmdri forgangsröðun verkefna. Einnig er lögð áhersla á að jafna aðgengi landsmanna að fjarskiptum. Að þessu leyti er um mikilvægt byggðamál að ræða, í raun það mikilvægasta á síðari tímum.

Vegna hlutverks fjarskipta við samruna upplýsingatækni og fjölmiðlunar er mikilvægt að endurgreina þá grunnþjónustu sem skal standa landsmönnum til boða þannig allir landsmenn geti tekið þátt í þróun upplýsingasamfélagsins á heimilum, í skólum og í fyrirtækjum. Einnig er mikilvægt að ný skilgreining á grunnþjónustu miði að því að tryggja öllum landsmönnum sem það kjósa aðgengi að fjölmiðlum.

Aðgengi að upplýsingasamfélaginu er ein af forsendum byggðar í landinu. Til að tryggja öllum landsmönnum þau gæði er sú leið farin að skilgreina viðmið hér á landi umfram alþjónustu. Þessi nýju íslensku viðmið kallast samþjónusta. Til samþjónustu telst þjónusta í fastaneti, GSM-farsímaþjónusta og sjónvarpsdreifing í samræmi við það sem segir í áætluninni.

Með þessu vil ég, sem ráðherra fjarskiptamála, fyrst og fremst flýta uppbyggingu þjónustu þar sem hún er lökust, þ.e. í strjálbýli, á miðum og á ferðamannastöðum. Við óttumst að landsbyggðin sitji annars eftir í örri þróun fjarskipta eða að uppbygging þar verði dýrari en ella. Því setjum við fram samræmd markmið um lágmarksþjónustu sem fullnægir kröfum nútímasamfélags.

Í fjarskiptaáætlun eru eftirfarandi meginmarkmið:

Alenningi standi til boða háhraðatenging á heimili sínu til flutnings á tali, mynd og gögnum.

GSM-farsímaþjónusta verði aðgengileg á þjóðvegi 1 og öðrum helstu stofnvegum og á helstu ferðamannastöðum.

Dreifing sjónvarpsdagskrár Ríkisútvarpsins, auk hljóðvarps Rásar 1 og Rásar 2, til sjómanna á miðum við landið og til strjálbýlli svæða verði stafræn um gervihnött.

Þessi markmið auka öryggi landsmanna með því að þétta GSM-netið, tryggja að allir landsmenn geti tekið virkan þátt í upplýsingasamfélaginu og að allir landsmenn til sjávar og sveita hafi aðgang að stafrænu íslensku sjónvarpi. Þessum markmiðum er ætlað að tryggja að Ísland verði áfram í fremstu röð þjóða þegar kemur að fjarskiptum, upplýsingatækni og aðgengi að efni fjölmiðla og upplýsingaveitna.

Ljóst er að markaðs- og tækniþróun næstu ára á fjarskiptasviðinu verður gríðarleg. Kemur þar margt til. Má nefna fyrirhugaða einkavæðingu Landssíma Íslands en með henni má gera ráð fyrir að frumkvæðisafl innan fyrirtækisins losni úr læðingi sem geri því enn frekar kleift að nýta þau tækifæri sem tækni og markaðsþróun bera með sér.

Í öðru lagi má nefna þá byltingu sem orðin er í geymslu og miðlun stafræns efnis í formi talþjónustu með gagnasendingum og fjölmiðlaefni.

Í þriðja lagi veldur aukning á bandbreidd því að nú er raunhæft að flytja sjónvarpsefni um flestar gerðir fjarskiptaneta. Sú þróun mun gerbreyta fjarskiptamarkaðnum og stuðla enn frekar að samruna fjarskipta, upplýsingatækni og fjölmiðlunar.

Kröfum neytenda um aukið val, bætt aðgengi og þjónustu óháð stað og stund verður best mætt með virkri samkeppni í alþjóðlegu umhverfi. Sýnt hefur verið fram á að fjarskiptatækni og þjónusta á fjarskiptanetinu skiptir miklu máli fyrir hagvöxt í nútímasamfélagi. Fyrirsjáanlegt er að þróun upplýsinga- og fjarskiptatækni verður áfram ör og ein af grunnstoðum hagvaxtar. Íslendingar eru þegar í fremstu röð í að nýta sér þessa tækni. Það er staða sem verðugt er að viðhalda og nýta til atvinnuuppbyggingar og framrásar á nýjum sviðum. Íslendingar verða að vera í fremstu röð þjóða með hagkvæma, örugga, aðgengilega og framsækna fjarskiptaþjónustu. Það er og hefur verið stefna mín sem ráðherra fjarskiptamála.

Hæstv. forseti. Ég mun nú fjalla nánar um meginmarkmið þessarar fyrstu fjarskiptaáætlunar. Með áherslu á forskot er horft til þeirrar byltingar sem nú á sér stað í fjarskiptum og upplýsingatækni og nýtingu nýrra tækifæra. Þess vegna setjum við okkur það markmið að þau tækifæri sem felast í góðum fjarskiptum, góðri menntun og tækniþróun, verði nýtt til að skapa störf og auka hagsæld um landið allt. Aðgengi að háhraðatengingum er lykilatriði í því að geta nýtt sér þjónustu upplýsingasamfélagsins að fullu, þar með talið miðlun stafrænnar sjónvarpsþjónustu.

Mikilvægt er að almenningur, skólar og atvinnufyrirtæki hafi aðgang að öflugum háhraðatengingum til að eiga kost á að njóta og nýta sér kosti upplýsingasamfélagsins. Þetta eru sjónarmiðin að baki því markmiði áætlunarinnar, að allir landsmenn sem þess óska geti tengst háhraðaneti og notið hagkvæmrar og öruggrar fjarskiptaþjónustu og að menntastofnanir verði tengdar öflugu háhraðaneti.

Notkun farsíma er afar mikil hér á landi. Almenningur og fyrirtæki hafa nýtt sér þessa nýju tækni og hefur það haft víðtæk þjóðfélagsleg áhrif þar sem hreyfanleiki er meiri, aðgengi bætt og öryggi aukið. Þrátt fyrir mikla útbreiðslu farsímaþjónustu hérlendis er samband víða gloppótt meðfram þjóðvegum, á ferðamannastöðum og á meginhluta hálendisins. Þetta veldur óþægindum og óöryggi. Mikilvægt er að þétta GSM-farsímanetið. Þrátt fyrir að það hafi ekki verið hannað sem öryggiskerfi gegnir það mikilvægu hlutverki sem öryggistæki fyrir almenning. Það er sú tilfinning sem almenningur hefur. Þetta eru sjónarmiðin að baki þeim markmiðum áætlunarinnar að GSM-farsímaþjónusta verði aðgengileg á þjóðvegi 1 og öðrum helstu stofnvegum, á helstu ferðamannastöðum eins og ég hef getið um áður. Eins er stefnt að því að háhraðafarþjónusta standi til boða um allt land eigi síðar en 2006 og langdræg stafræn farsímaþjónusta standi til boða um allt land og á miðum við landið eftir að rekstri NMT-kerfisins lýkur.

Þegar er hafin umbreyting hliðrænna dreifikerfa sjónvarps yfir í stafræn kerfi. Þessi breyting mun auðvelda sjónvarpsstöðvunum og efnisveitum að miðla efni til almennings og jafnframt munu opnast möguleikar á auknu framboði slíkra aðila til almennings á sjónvarps- og afþreyingarefni. Aðgangur að slíku efni er lykilatriði varðandi búsetuskilyrði víða um land. Þegar er hafinn flutningur frá hliðrænni dreifingu sjónvarps yfir í stafræna tækni sem auðveldar dreifingu efnis og eykur val um leiðir til móttöku. Aðgangur að sjónvarps- og afþreyingarefni er að verða eitt af lykilatriðum við val á búsetu. Þess vegna setjum við okkur þau markmið að allir landsmenn hafi aðgang að gagnvirku stafrænu sjónvarpi, að útvarpað verði um gervihnött fyrir landið allt og næstu mið.

Virkni fjarskiptakerfa og vernd almennings í upplýsingasamfélaginu er afar mikilvæg. Í fjarskiptaáætlun er að finna eftirfarandi markmið varðandi þetta:

Öryggi almennra fjarskiptaneta innan lands og við umheiminn verði tryggt með fullnægjandi varasamböndum.

Öryggi netsins verði bætt svo að almenningur geti treyst á það í viðskiptum og daglegu lífi.

Aðgangur að greiðum, hagkvæmum og öruggum fjarskiptum er mikilvægt fyrir samkeppnishæfni landsins og í raun alla þegna þjóðfélagsins. Mikilvægt er að við Íslendingar sitjum við sama borð og aðrar þjóðir varðandi aðgang og verðlagningu fjarskiptatenginga við útlönd. Einnig er afar mikilvægt fyrir atvinnu- og byggðaþróun í landinu að aðgengi að og verðlagning á fjarskiptaþjónustu sé jöfnuð milli dreifbýlis og þéttbýlis. Þá veltur á miklu að samkeppni á fjarskiptamarkaði innan lands sé virk og þeim stjórntækjum sem stjórnvöld hafa til að örva samkeppni sé beitt með skilvirkum hætti. Þess vegna setjum við okkur eftirfarandi markmið:

Unnið verði að því að bæta laga- og reglugerðaumhverfi og efla eftirlit á fjarskiptamarkaði til að auka samkeppni, gagnsæi og traust.

Stuðlað verði að því að lækka einingarverð í fjarskiptatengingum milli landa.

Stuðlað verði að því að jafna verð á fjarskiptaþjónustu um land allt.

Stuðlað verði að því að bæta aðgengi að hagkvæmum og öruggum fjarskiptakerfum um land allt.

Stuðlað verði að því að fatlaðir geti nýtt sér fjarskipti í upplýsingasamfélaginu.

Hæstv. forseti. Ég hef aðeins fjallað um meginmarkmið áætlunarinnar. Fjarskiptaáætlun snertir með einum eða öðrum hætti flesta ef ekki alla landsmenn. Hún fellur undir ábyrgð margra ráðuneyta og stofnana ríkisins og fyrirtækja í landinu.

Fjármögnun áætlunarinnar mun að sjálfsögðu ráðast af fjárveitingum frá Alþingi en gert er ráð fyrir að stofnaður verði sérstakur sjóður um framkvæmdirnar og að lagt verði til hans fé úr sölu Símans í samræmi við viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þegar hafa verið unnin drög að sérstakri framkvæmdaáætlun til að hrinda í framkvæmd einstökum þáttum í áætluninni og ábyrgð einstakra aðila skilgreind nánar. (Forseti hringir.) Ég legg ríka áherslu að að við setjum okkur skýra stefnu sem hafi það markmið að auðlindin (Forseti hringir.) sem felst í fjarskiptunum verði í allra þágu.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og samgöngunefndar.