131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Stefna í fjarskiptamálum 2005--2010.

746. mál
[18:45]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. samgönguráðherra leggur mikið traust á sölu Símans. Ég minni á þann sannleik að maður eyðir ekki sömu krónunni tvisvar sinnum. Menn virðast vera búnir að lofa andvirði Símans í margvísleg verkefni, t.d. í ýmis samgöngumannvirki, að byggja nýtt sameinað sjúkrahús á höfuðborgarsvæðinu og svo má lengi telja. Ég tel að það sé ekki alveg fast í hendi að menn geti farið í öll þau verkefni eingöngu út frá sölu Símans.

Ég vil nota tækifærið af því við ræðum um stefnu í fjarskiptamálum og minnast á grunnnetið. Við höfum einmitt varað við því að selja grunnnetið vegna þess að það muni að öllum líkindum leiða til þess að ýmsar byggðir muni standa höllum fæti á eftir og það sé að mörgu leyti öfugsnúið að setja þessa gulrót, sölu Símans, sem mun líklega leiða til verri þróunar í fjarskiptamálum í hinum dreifðu byggðum, því miður. Það markmið sem hér kemur fram og leiðin að því, þ.e. að selja Símann, fer því ekki alveg saman.