131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Stefna í fjarskiptamálum 2005--2010.

746. mál
[18:48]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er hægt að fagna því að lögð skuli vera fram stefna stjórnvalda í fjarskiptamálum vonum seinna. Hins vegar veltir maður fyrir sér orðalaginu. Það stendur að stefnan sé að gera þetta og stuðlað verði að þessu og hinu, sem er lofsvert og fallegt, en maður veltir því fyrir sér hvernig stjórnvöld ætla að framkvæma þetta. Hver á að framkvæma þennan óskalista ríkisstjórnarinnar? Hvers vegna var þetta ekki gert á síðustu árum? Landssíminn hefur verið að skila milljarðagróða í ríkissjóð. Hvers vegna var Landssíminn ekki krafinn um að koma á GSM-þjónustu á öllum aðalþjóðvegum landsins og stofnvegum og öðrum stöðum þar sem fólk býr? Hvers vegna hefur það ekki verið gert? Ef Síminn verður seldur er þetta hjóm út í loftið, eða hver á að framkvæma þetta?

Hugtakið samþjónusta er voðalega fallegt nýyrði. Hvers vegna var þetta ekki bara sett undir alþjónustu þegar við samþykktum lögin, alþjónusta, sem verður náttúrlega bara úrelt vegna þess að hún miðaði við einhverja stöðu sem var fyrir nokkrum árum þegar lögin voru sett og síðan engin þróun meir. Hvers vegna var samþjónustan þá ekki sett í staðinn fyrir alþjónustuna?