131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Stefna í fjarskiptamálum 2005--2010.

746. mál
[18:54]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það blasir algerlega við að hv. þm. Jón Bjarnason hefur verulegar áhyggjur af því að árangur verði af því uppbyggingarstarfi á sviði fjarskipta sem við stefnum að. Ég er undrandi að hv. þingmaður skuli tala með þeim hætti sem hann gerir. Hver á að framkvæma? Hv. þingmaður hefur verið opinber starfsmaður og sinnt því mikilvæga verkefni að reka stofnun á vegum ríkisins og þær aðferðir sem við höfum í dag eru vel þekktar, þ.e. við gerum ráð fyrir að bjóða t.d. út uppbyggingu GSM-kerfanna á þjóðvegunum. Um það gilda tilteknar reglur og ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún muni leggja til fjármuni í það verkefni.

Ég vil endurtaka það og undirstrika að við treystum að sjálfsögðu fyrst og fremst á það að fjarskiptafyrirtækin sem keppast við að ná viðskiptum til sín sinni þessum verkefnum með sama metnaði og fram kemur í þeirri áætlun sem hér er til meðferðar um uppbyggingu þjónustunnar. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að svo verði.

Ýmsir hv. þingmenn þekkja vel til reksturs fjarskiptafyrirtækisins Símans og vita hversu mikill kraftur og mikil þekking er innan þess fyrirtækis og það er með ólíkindum hversu mikil gróska er á fjarskiptamarkaðnum hjá þeim fyrirtækjum sem sinna fjarskiptaþjónustu, svo sem eins og Og Vodafone. Ég ber því engan kvíðboga fyrir því að mönnum takist ekki að uppfylla þær kröfur sem verið er að setja um stefnu okkar í fjarskiptamálum.