131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Stefna í fjarskiptamálum 2005--2010.

746. mál
[19:17]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þessi tillaga til þingsályktunar um stefnu í fjarskiptamálum er í sjálfu sér tímamótaplagg. Ég verð að segja að það að hafa aðeins átta mínútur til þess ræða hana hér er ansi lítið. Það hefði verið sanngjarnt gagnvart svona viðamiklu máli að lengja ræðutímann til þess að hægt yrði að fara í gegnum þau atriði sem hérna er verið að taka á og líka að ræða frekar um framkvæmdina þar á.

Ég hef áður sagt hér í umræðum um þetta mál að ég tel það góðra gjalda vert að það sé sest niður og gerð úttekt á stöðu fjarskiptamála í landinu, útbreiðslu á hinum ýmsu þáttum. Þó svo að hún hafi kannski svo sem legið fyrir í einhverjum atriðum er nauðsynlegt að taka þetta saman á einn stað og í framhaldi af því jafnframt reyna að meta horfur til næstu ára og setja um það stefnumörkun. Þá tillögu sem við höfum áður rætt hér um breytingu á lögum um fjarskipti sem felur í sér að lögð sé fram fjarskiptaáætlun á ákveðnu árabili, tel ég góðra gjalda verða. Þá verður væntanlega líka greint frá stöðu mála og hvað hefur unnist frá því síðast. Það er því alveg hægt að láta í ljós ánægju yfir þeim atriðum þessa máls. Einnig tel ég á vissan hátt til fyrirmyndar hvernig unnið hefur verið að því að gera þessa úttekt eða áætlun. Fenginn var til þess fjöldi manns úr heimi fjarskipta, neytenda, frá almenningssamtökum, stjórnmálaflokkum o.s.frv. að taka saman bakgrunn þessa máls.

Hitt er svo annað mál að þegar þetta kemur hér fram og hæstv. ráðherra hefur gert grein fyrir því þá kemur þetta náttúrlega fram eins og óskalisti. Við erum í þeirri stöðu í dag að ríkisstjórnin er að berjast um á hæl og hnakka gegn vilja þjóðarinnar við að selja Landssímann sem er það öfluga tæki sem þjóðin á til að hrinda þeim óskalista í framkvæmd sem hæstv. ráðherra hefur hér mælt fyrir í von um að verði uppfylltur. Því er þessi tillöguflutningur í ákveðnu tómarúmi. Ef hér væri staðfastlega fyrir hendi ásetningur um að halda Landssímanum í þjóðareign þannig að við gætum beint styrk hans til þess að framkvæma allt það góða sem hér er lagt til þá værum við á góðum rekspöl. Þá værum við að feta okkur inn á sama vinnulag og gildir t.d. um vegáætlun, enda má segja að fjarskiptamálin séu hluti af samgöngumálunum og nátengd þróun í vegamálum. Þar gerum við vegáætlun. Þar gerum við framkvæmdaáætlun í vegamálum. Þar höfum við Vegagerð ríkisins til þess að sjá um hina framkvæmdalegu hlið málsins. Alþingi ákveður fjármagn á fjárlögum að því marki sem það er ekki þá bundið í föstum tekjustofnum. Engu að síður er það ákvörðun Alþingis á hverjum tíma. Þannig höfum við tök á málunum. Þannig gætum við líka haft tök á fjarskiptamálunum ef við hefðum Landssímann, hið öfluga fyrirtæki í hendi, og segðum: „Þetta eru þau verkefni sem við ætlum að leggja áherslu á, beita okkur fyrir að verði gerð og til þess rennur fjármagn, annars vegar frá fyrirtækinu sjálfu og hins vegar, ef á vantar, frá ríkissjóði. Það sem gert er er í almannaeign og við höfum þar hönd í bagga.“ Verði hins vegar Landssíminn seldur og við verðum algjörlega upp á einkaaðila komin með framkvæmd af þessum óskalista þá er þetta býsna haldlítið plagg. Þá er þetta bara eins og svona góð skálaræða og hefur litlu meira gildi en það, herra forseti, því miður. Nógu erfiðlega hefur okkur gengið að fylgja vegáætlun. Þó svo hún sé staðfest, bæði fjármagn og framkvæmd, þá hefur hún núna á síðustu þremur árum, á þriggja ára tímabili, verið skorin niður um 6 milljarða kr. Hvaða hald er þá í þessum óskalista ef Landssíminn verður seldur og enginn aðili er í reynd til að framkvæma það sem hér er verið að óska eftir?

Hvers vegna var t.d. ekki arði Landssímans nú í ár beitt til þess að koma einhverju af því sem hér er verið að ræða í framkvæmd? Hvers vegna? Var verið að hlífa honum á einhvern hátt? Það var hirtur út úr honum arður upp á nokkra milljarða króna. Hefði ekki verið nær að beita styrk hans einmitt til þess að gera eitthvað af því góða sem hér er nefnt? En allt á þetta að gera næst, á næsta ári og þarnæsta ári.

Uppbygging GSM-símkerfisins út um land hefur nánast staðið í stað í nokkur ár vegna þess að verið er að búa Landssímann, að því er sagt er, undir sölu, undir markaðsvæðingu og því má ekki leggja á hann að standa í framkvæmdum sem hugsanlega skila ekki uppsettum arði, 15% arði, 25% arði eða hver hann er. En hver er það sem setur arðsemiskröfuna? Það er auðvitað hluthafafundurinn þar sem ríkið á nærri 99%. (Gripið fram í: Steingrímur J. Sigfússon er ...) Já, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. En meira að segja hann, sá öflugi þingmaður, var beittur ofbeldi af þeim sem fóru með hlutabréfið. Það var ekki einu sinni haldinn hluthafafundur þegar hann vildi ræða stöðu málanna. (Gripið fram í.) Hvað haldið þið þá að gerist eftir að búið er að selja Símann? Þó hæstv. samgönguráðherra (Forseti hringir.) sé harður af sér þá berst hann nú ekki við vindinn, sérstaklega ef ekkert er í pokanum.