131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Stefna í fjarskiptamálum 2005--2010.

746. mál
[19:48]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski partur af þróun sem verður í samfélaginu sem skýrir það hvers vegna við erum núna að fjalla um fjarskiptaáætlun, um leið og við erum að fjalla um frumvarp til laga um breytingar á fjarskiptalögunum sem fela það í sér, sem ekki var áður, að það sé lagaskylda að leggja upp slíka áætlun. Réttilega benti hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson á að ekki lægi sérstök lagastoð að baki áformum um gerð fjarskiptaáætlunar en í mjög merkilegri skýrslu um upplýsingasamfélagið, sem hefur verið nefnd Auðlind í allra þágu, var í fyrsta skipti skrifuð inn af samgönguráðuneytinu hugmyndafræðin um það að setja upp þessa fjarskiptaáætlun.

Þróunin hefur verið mikil og hröð í þessu öllu saman. Það er alveg ljóst að ef við hefðum lagt í þann víkinginn að setja upp NMT-senda úti um allar jarðir þegar NMT-farsímakerfið var byggt upp á sínum tíma stæðum við frammi fyrir vanda. Sá búnaður er að verða úreltur. Ég held satt að segja að núna sé alveg rétti tíminn hjá okkur þegar það liggur nokk fyrir að GSM-símatæknin verður þróuð áfram og við getum notað sendana fyrir GSM-símana þangað til þriðja kynslóðin kemur. (Forseti hringir.) Ég held að við séum alveg á réttu róli í þessu og að núna sé fullkomlega eðlilegur tími.