131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Stefna í fjarskiptamálum 2005--2010.

746. mál
[19:57]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í framsöguræðu minni fyrr í kvöld er staða fjarskiptakerfisins og þjónustunnar á Íslandi með því allra besta sem þekkist í Evrópu. Það er nú ekki verra en það. (Gripið fram í.) Ég get ekki annað en brosað að frammíkalli hv. þm. Jóns Bjarnasonar því að hann getur ekki komist yfir það að við ætlum að fara að umbreyta þessari eign okkar sem Síminn er í aðrar eignir sem gefa enn meiri arð. En hvað um það.

Síminn hefur í gegnum tíðina staðið fyrir feiknarlega öflugri uppbyggingu eins og má lesa út úr þeim orðum mínum að hér er eitt allra öflugasta fjarskiptakerfið sem völ er á. Þar til viðbótar voru teknar ákvarðanir á sínum tíma um að það skyldi vera ein verðlagning í talsímaþjónustu alls staðar. Það er sama verð í farsímaþjónustu alls staðar. Ég stóð fyrir því að ráðuneytið gerði sérstakan samning við Símann um hið svokallaða ADM-net sem tryggði það að verð á gagnaflutningum lækkaði mjög mikið og það varð jöfnuður á svæðunum í verði. Þetta skipti miklu máli. Ég get hins vegar alveg tekið undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að við höfum gert meiri kröfur. Við höfum gert meiri kröfur þrátt fyrir þessa góðu stöðu. Það er það sem við erum að leggja á ráðin um núna og stilla því upp með mjög skipulögðum hætti hvernig við stöndum að þessum úrbótum. Mikilvægustu úrbæturnar núna eru á sviði GSM-kerfisins vegna þess að þar er um að ræða öryggisþætti.