131. löggjafarþing — 113. fundur,  19. apr. 2005.

Stefna í fjarskiptamálum 2005--2010.

746. mál
[19:59]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt að Síminn, áður Póstur og sími, er gott fyrirtæki og hefur skilað Íslendingum miklum árangri gegnum áratugina með uppbyggingu sinni. Hann hefur gert ýmislegt vel og alveg fram á þennan dag. Ég bakka samt ekki með það að hann hefur haft afl til að gera enn betur. Það er rétt að kröfurnar sem við gerum eru miklar, sem betur fer vil ég segja því að það er einmitt forsenda þess að við, fámenn þjóð í stóru og strjálbýlu landi, getum búið hér í nútímasamfélagi og verið öll fullgildir þátttakendur í því. Það er ákaflega mikið í húfi. Nógu erfið er barátta hinna minni byggða og landsbyggðarinnar þó að ekki halli meira á menn í þessum efnum en raun ber þó þegar vitni.

Varðandi gjaldskrárbreytingar og landið allt sem eitt gjaldsvæði í talsímaþjónustu getum við rætt þau mál við núverandi hæstv. samgönguráðherra, bæði ég, ræðumaður sem hér talar, og eins sá sem situr á forsetastóli.

Að síðustu vil ég leggja á það áherslu að það er framtíðin og framtíðarþróunin sem hér skiptir öllu máli. Ástandið í núinu er að mörgu leyti bærilegt vegna þeirrar uppbyggingar frá umliðnum árum og áratugum sem við búum að. Jafnvel þó að tæknin breytist og margt nýtt hafi komið til sögunnar skiptir líka áratugauppbygging sem að baki liggur miklu máli og sú pólitík sem þar hefur verið lögð til grundvallar. Áhyggjur mínar liggja í því að það verði torsótt leið að sækja í gegnum markaðinn og hreinan einkarekstur þann jöfnuð og þá tryggingu að landsmenn, án tillits til búsetu, fái um ókomin ár að vera fullgildir þátttakendur í upplýsingasamfélaginu og njóta þar jafns réttar, bæði hvað varðar aðgang og verð. Einhverjir fjármunir í sjóð í eitt skipti núna og einhver fjárfesting, þó að ágæt sé, eru engin trygging fyrir því að eftir fimm ár eða tíu hafi ekki dregið aftur í sundur. Því miður sýnir reynslan frá löndum sem hafa hana, eins og Nýja-Sjáland, að þar liggja hætturnar.